Boðun Maríu

26 En í sjötta mánuði sendi Guð Gabríel engil til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, 27 til meyjar er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs en mærin hét María. 28 Og engillinn kom inn til hennar og sagði: „Heil vert þú sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.“
29 En María varð hrædd við þessi orð og hugleiddi hvað þessi kveðja ætti að merkja. 30 Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. 31 Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. 32 Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans 33 og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“
34 Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“
35 Og engillinn sagði við hana: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. 36 Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni og þetta er sjötti mánuður hennar sem kölluð var óbyrja 37 en Guði er enginn hlutur um megn.“
38 Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Og engillinn fór burt frá henni.

María og Elísabet

39 En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. 40 Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. 41 Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda 42 og hrópaði hárri röddu: „Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. 43 Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? 44 Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. 45 Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni.“