1 Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gerst hafa meðal okkar, 2 samkvæmt því sem þeir menn hafa flutt okkur er frá öndverðu voru sjónarvottar og urðu þjónar orðsins. 3 Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus, 4 svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna sem þú hefur fræðst um.

Bæn heyrð

5 Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet. 6 Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu réttlát eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins. 7 En þau áttu ekki barn því að Elísabet var óbyrja og bæði voru þau hnigin að aldri.
8 Eitt sinn er röðin kom að sveit Sakaría og hann þjónaði sem prestur í musterinu, 9 þá féll það í hlut hans, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi. 10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn meðan reykelsisfórnin var færð.
11 Birtist honum þá engill Drottins sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið. 12 Sakaría varð hverft við sýn þessa og ótta sló á hann. 13 En engillinn sagði við hann: „Óttast þú eigi, Sakaría, því að bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son og þú skalt láta hann heita Jóhannes. 14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans 15 því að hann mun verða mikill fyrir augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi. 16 Og mörgum Ísraelsmönnum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra. 17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía, til að snúa hjörtum feðra til barna sinna og gefa óhlýðnum réttlátt hugarfar og búa Drottni altygjaðan lýð.“
18 Sakaría sagði við engilinn: „Hvernig get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri.“
19 En engillinn svaraði honum: „Ég er Gabríel sem stend frammi fyrir Guði og Guð sendi mig til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn. 20 En nú verður þú mállaus og getur ekki talað til þess dags er þetta kemur fram vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum. En þau munu rætast á sínum tíma.“
21 Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist hve honum dvaldist í musterinu. 22 En er hann kom út gat hann ekki talað og skildu menn að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram. 23 Og er þjónustudagar hans voru liðnir fór hann heim til sín.
24 En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði: 25 „Þannig hefur Drottinn sýnt að honum er annt um mig og hefur afmáð hneisu mína í augum manna.“