Fyrsta plágan: Vatn breytist í blóð

14 Drottinn sagði við Móse: „Hjarta faraós er ósveigjanlegt, hann neitar að sleppa fólkinu. 15 Farðu til faraós í fyrramálið þegar hann gengur niður að fljótinu. Þú skalt ganga til móts við hann á árbakkanum og hafa stafinn, sem varð að eiturslöngu, í hendi þér. 16 Þú skalt segja við hann: Drottinn, Guð Hebrea, sendi mig til þín með þessi boð: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér úti í eyðimörkinni. Fram til þessa hefur þú ekki viljað hlusta á þetta. 17 Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu komast að raun um að ég er Drottinn: Með stafnum, sem ég hef í hendi mér, slæ ég á vatnið í fljótinu og þá breytist það í blóð. 18 Fiskarnir í fljótinu munu drepast og fljótið fúlna svo að Egyptar vilja ekki drekka úr því.“
19 Drottinn sagði við Móse: „Segðu við Aron: Taktu staf þinn og réttu hönd þína út yfir vatn Egypta, yfir fljót þeirra, yfir áveituskurði þeirra og yfir mýrar þeirra og yfir allar vatnsþrær þeirra og það verður að blóði. Blóð skal verða um allt Egyptaland, bæði í trékeröldum og steinkerum.“
20 Þetta gerðu Móse og Aron eins og Drottinn hafði boðið. Hann reiddi upp stafinn og sló á vatnið í fljótinu fyrir augum faraós og fyrir augum þjóna hans og allt vatnið í fljótinu breyttist í blóð. 21 Fiskarnir í fljótinu drápust og fljótið fúlnaði svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatnið úr því. Blóð var um allt Egyptaland. 22 Spáprestar Egypta gerðu þetta einnig með fjölkynngi sinni en hjarta faraós var hart og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt. 23 Faraó sneri þá burt, hélt heim til sín og lét sig þetta engu varða. 24 En allir Egyptar grófu eftir drykkjarvatni umhverfis fljótið því að þeir gátu ekki drukkið vatnið úr því.
25 Síðan liðu sjö dagar frá því að Drottinn sló á fljótið.