6. kafli

Aron spámaður Móse

26 Það voru Aron og Móse sem Drottinn sagði við: „Leiðið Ísraelsmenn út úr Egyptalandi fylktu liði.“ 27 Það voru þeir sem töluðu við faraó, Egyptalandskonung, um að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi; það voru þeir Móse og Aron.
28 Þegar Drottinn ávarpaði Móse í Egyptalandi 29 sagði hann: „Ég er Drottinn. Segðu faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi við þig.“ 30 Móse svaraði frammi fyrir augliti Drottins: „Ég er maður málstirður. Hvers vegna ætti faraó að hlusta á mig?“

7. kafli

1 Þá sagði Drottinn við Móse: „Nú geri ég þig að Guði fyrir faraó og Aron, bróðir þinn, skal verða spámaður þinn. 2 Þú átt að segja allt sem ég fel þér og Aron, bróðir þinn, á að segja faraó það svo að hann leyfi Ísraelsmönnum að fara úr landi sínu. 3 Ég mun forherða hjarta faraós og gera mörg tákn og stórmerki í Egyptalandi. 4 Faraó mun ekki hlusta á ykkur, þess vegna mun ég leggja hönd mína á Egyptaland og leiða hersveitir mínar, þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi með þungum refsidómum. 5 Þegar ég rétti út hönd mína yfir Egyptaland og leiði Ísraelsmenn burt frá Egyptum munu þeir komast að raun um að ég er Drottinn.“
6 Móse og Aron gerðu það og fóru að öllu sem Drottinn hafði falið þeim. 7 Móse var áttatíu ára og Aron áttatíu og þriggja ára þegar þeir töluðu við faraó.

Faraó daufheyrist

8 Drottinn ávarpaði Móse og Aron og sagði: 9 „Ef faraó segir við ykkur: Gerið kraftaverk, skaltu segja við Aron: Taktu staf þinn og kastaðu honum niður frammi fyrir faraó. Hann verður að eiturslöngu.“ 10 Síðan fóru Móse og Aron til faraós og þeir gerðu það sem Drottinn hafði boðið þeim. Aron kastaði staf sínum frammi fyrir faraó og þjónum hans og hann varð að eiturslöngu. 11 Þá kallaði faraó fyrir sig vitringa og galdramenn og spáprestar Egyptalands gerðu eins með fjölkynngi sinni. 12 Hver þeirra kastaði staf sínum og stafirnir urðu að eiturslöngum en stafur Arons gleypti stafi þeirra. 13 En hjarta faraós var hart og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt.