5. kafli

Móse og Aron hjá faraó

1 Eftir þetta gengu Móse og Aron á fund faraós og sögðu: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti haldið mér hátíð í eyðimörkinni.“ 2 Faraó spurði: „Hver er Drottinn sem ég á að hlýða með því að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki Drottin og ég leyfi Ísraelsmönnum ekki að fara.“ 3 En þeir svöruðu: „Guð Hebrea birtist okkur. Við viljum fara þrjár dagleiðir inn í eyðimörkina og færa Drottni, Guði okkar, sláturfórnir svo að hann láti hvorki drepsótt né sverð koma yfir okkur.“ 4 Þá sagði Egyptalandskonungur við þá: „Hvers vegna viljið þið, Móse og Aron, taka fólkið úr vinnunni? Farið til erfiðis ykkar.“ 5 Faraó sagði enn fremur: „Nú, þegar þetta fólk er orðið fleira en íbúar landsins, viljið þið láta það hætta kvaðavinnunni.“ 6Sama dag gaf faraó verkstjórum fólksins og eftirlitsmönnum þessa skipun: 7 „Framvegis megið þið ekki fá fólkinu hálm til tígulsteinagerðar eins og hingað til. Það á sjálft að ganga um og safna saman hálmi. 8 En þið eigið að setja því fyrir að gera jafnmarga tígulsteina og hingað til. Gefið því ekkert eftir. Fólkið er latt, þess vegna hrópar það: Við viljum fara og færa Guði okkar sláturfórnir. 9 Erfiðið á að hvíla þungt á mönnunum svo að þeir hugsi um það en hlusti ekki á lygar.“
10 Þá gengu verkstjórar fólksins og eftirlitsmenn út og sögðu við fólkið: „Svo segir faraó: Ég fæ ykkur engan hálm. 11 Farið og sækið ykkur hálm þar sem þið getið fundið hann. Samt verðið þið krafin um sömu afköst.“
12 Fólkið dreifði sér þá um allt Egyptaland til þess að safna hálmi. 13 Verkstjórarnir ráku á eftir því og sögðu: „Afköstin skulu vera hin sömu á hverjum degi eins og hingað til á meðan þið fenguð hálminn.“ 14 Eftirlitsmenn Ísraelsmanna, sem verkstjórar faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir og sagt var við þá: „Hvers vegna hafið þið hvorki í gær né í dag skilað jafnmörgum tígulsteinum og áður?“ 15 Eftirlitsmenn Ísraelsmanna gengu fyrir faraó, báru sig upp við hann og sögðu: „Hvers vegna ferðu svona með þræla þína? 16 Þrælum þínum er ekki lengur fenginn hálmur en samt er heimtað af okkur: Búið til tígulsteina. Auk þess eru þrælar þínir barðir og þínir menn eiga sök á því.“ 17 Hann svaraði: „Þið eruð latir og nennið engu. Þess vegna segið þið: Við viljum fara til að færa Drottni sláturfórn. 18 Farið nú til starfa. Þið fáið engan hálm en samt verðið þið að skila hinum ákveðna fjölda tígulsteina.“ 19 Nú sáu eftirlitsmenn Ísraels að illa var komið fyrir þeim af því að sagt var við þá: „Ekkert er ykkur gefið eftir af daglegum afköstum við tígulsteinagerðina.“
20 Þegar þeir komu út frá faraó rákust þeir á Móse og Aron sem stóðu og biðu eftir þeim. 21 Eftirlitsmennirnir sögðu við þá: „Drottinn ætti að birtast ykkur og dæma ykkur því að þið hafið gert okkur illa þokkaða í augum faraós og þjóna hans og fengið þeim sverð í hendur til að drepa okkur.“
22 Þá sneri Móse sér til Drottins og sagði: „Drottinn, hvers vegna leikurðu þetta fólk svona grátt? Hvers vegna hefur þú sent mig? 23 Frá því að ég fór að ganga fyrir faraó til að tala í þínu nafni hefur hann farið illa með þetta fólk og þú hefur alls ekki bjargað lýð þínum.“

6. kafli

1 En Drottinn svaraði Móse: „Nú færðu að sjá hvað ég ætla að gera faraó því að neyddur af máttugri hendi lætur hann þá lausa, neyddur af máttugri hendi rekur hann þá úr landi sínu.“