1 Móse svaraði og sagði: „En ef þeir trúa mér ekki og hlusta ekki á mig, heldur segja: Drottinn hefur ekki birst þér.“ 2 Þá sagði Drottinn: „Hvað ertu með í hendinni?“ „Staf,“ svaraði hann. 3 Þá sagði Drottinn: „Varpaðu honum til jarðar.“ Móse varpaði stafnum til jarðar og varð hann að eiturslöngu og Móse hörfaði undan henni. 4Þá sagði Drottinn við Móse: „Réttu út höndina og gríptu um halann á henni.“ Hann rétti út höndina, tók um hann og varð hún þá aftur að staf í hendi hans. 5 „Þetta verður til þess að þeir geti trúað því að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér.“ 6 Enn fremur sagði Drottinn við hann: „Stingdu hendinni í barm þér.“ Móse stakk hendinni í barm sér en þegar hann dró hana aftur út var hönd hans hvít sem snjór af holdsveiki. 7 Þá sagði Drottinn: „Stingdu hendinni aftur í barm þér.“ Hann stakk hendinni í barm sér en þegar hann dró hana til sín var hún aftur orðin eins og annað hörund hans. 8 „Ef þeir trúa þér hvorki né láta sannfærast af fyrra jarteikninu munu þeir láta sannfærast af hinu síðara. 9 En fari svo að þeir trúi hvorki þessum tveimur jarteiknum né hlusti á þig skaltu sækja vatn í Níl og ausa því á þurrt land. Þá verður vatnið, sem þú sóttir í ána, að blóði.“
10 Þá sagði Móse við Drottin: „Æ, Drottinn, ég hef aldrei málsnjall verið, hvorki áður fyrr né nú eftir að þú fórst að tala við mig, þjón þinn. Mér er tregt um mál og tungutak.“ 11 Drottinn svaraði honum: „Hver gefur manninum munn, hver gerir hann mállausan eða heyrnarlausan, sjáandi eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn? 12 En farðu nú. Ég verð með munni þínum og kenni þér hvað þú átt að segja.“ 13 Móse sagði: „Æ, Drottinn, sendu einhvern annan.“ 14 Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: „Er ekki Levítinn, Aron, bróðir þinn? Ég veit að hann er vel máli farinn. Hann er meira að segja í þann veginn að halda af stað til móts við þig og hann mun gleðjast af heilum hug þegar hann sér þig. 15 Þú skalt tala til hans og leggja honum orð í munn en ég verð sjálfur með munni þínum og munni hans og ég mun kenna ykkur hvað þið skuluð gera. 16 Hann á að tala til þjóðarinnar fyrir þig, hann verður munnur þinn en þú verður honum Guð. 17 Þú skalt taka þennan staf þér í hönd og gera jarteiknin með honum.“