2. kafli

16 Presturinn í Midían átti sjö dætur. Þær komu til að sækja vatn og fylla þrærnar til að brynna fé föður síns. 17 Þá komu nokkrir hjarðmenn og vildu reka þær burt. En Móse stóð upp og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra. 18 Þegar þær komu heim til Regúels, föður síns, spurði hann: „Hvers vegna komið þið svona snemma heim í dag?“ 19 Þær svöruðu: „Egypskur maður varði okkur fyrir hjarðmönnunum og jós meira að segja upp vatni fyrir okkur og brynnti fénu.“ 20 Þá sagði hann við dætur sínar: „Hvar er hann? Hvers vegna skilduð þið manninn eftir? Bjóðið honum inn svo að hann fái eitthvað að eta.“ 21 Móse ákvað að vera um kyrrt hjá þessum manni. Hann gaf Móse Sippóru, dóttur sína, fyrir konu 22 og hún ól son. Móse gaf honum nafnið Gersóm því að hann sagði: „Ég er aðkomumaður í ókunnu landi.“
23 Mörgum árum síðar dó Egyptalandskonungur. Ísraelsmenn stundu undan þrældómnum og kveinuðu og neyðaróp þeirra steig upp til Guðs. 24 Þegar Guð heyrði kveinstafi þeirra minntist hann sáttmála síns við feður þeirra, Abraham, Ísak og Jakob. 25 Guð leit til sona Ísraels og birtist þeim.

3. kafli

Köllun Móse

1 Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. 2 Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki. 3 Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“
4 Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ 5 Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ 6 Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.