30 Ísraelsmenn héldu gegn niðjum Benjamíns á þriðja degi og fylktu þeir sér gegnt Gíbeu, eins og í fyrri skiptin. 31 Þá fóru Benjamínítar út á móti liðinu, létu blekkjast til að fara frá borginni og tóku að fella menn af liðinu, eins og í fyrri skiptin, úti á þjóðvegunum, alls um þrjátíu manns af Ísrael. Annar þjóðvegurinn liggur upp til Betel en hinn til Gíbeu yfir vellina. 32 Þá hugsuðu niðjar Benjamíns: „Þeir bíða ósigur fyrir okkur eins og í fyrsta skiptið.“ En Ísraelsmenn höfðu sagt: „Við skulum flýja svo að við getum lokkað þá frá borginni og út á þjóðvegina.“ 33 Allir Ísraelsmenn fóru hver af sínum stað og fylktu sér í Baal Tamar og þeir Ísraelsmanna, sem lágu í launsátri, þustu fram úr sínum stað fyrir vestan Geba. 34 Síðan sóttu tíu þúsund einvalaliðs úr öllum Ísrael fram gegn Gíbeu og hófst þar hörð orrusta en hinir vissu ekki að ógæfan vofði yfir þeim.
35 Þannig lét Drottinn Benjamín bíða ósigur fyrir Ísrael og Ísraelsmenn drápu tuttugu og fimm þúsund og eitt hundrað manns af Benjamín á þeim degi og voru þeir allir vopnum búnir.
36 Þá sáu niðjar Benjamíns að þeir höfðu beðið ósigur. Ísraelsmenn gáfu Benjamín svigrúm því að þeir treystu launsátrinu sem þeir höfðu hjá Gíbeu. 37 En þeir sem í launsátri voru spruttu upp og geystust fram gegn Gíbeu og felldu alla borgarbúa með sverði. 38 Það var samkomulag Ísraelsmanna og þeirra sem í launsátri voru að þeir skyldu gefa merki með því að láta reyk leggja upp af borginni. 39 Ísraelsmenn lögðu á flótta í bardaganum og Benjamínítar tóku þá að fella nokkra af Ísraelsmönnum, um þrjátíu manns, því að þeir hugsuðu: „Þeir hafa þegar beðið ósigur fyrir okkur eins og í fyrstu orrustunni.“ 40 Þá tók merkið, reykjarmökkurinn, að sjást yfir borginni. Þegar niðjar Benjamíns sneru við stóð öll borgin í björtu báli. 41 Þá sneru Ísraelsmenn við og skelfdust nú Benjamínítar því að þeir sáu að ógæfan var komin yfir þá. 42 Flýðu þeir undan Ísraelsmönnum í átt til eyðimerkurinnar og var orrustan þó á hælum þeim og þeir, sem komu úr borgunum, drápu þá. 43 Þeir umkringdu Benjamíníta, eltu þá og tróðu þá undir fótum sér þar sem þeir höfðu leitað sér hvíldar, alla leið austur fyrir Gíbeu. 44 Þar féllu átján þúsund af Benjamín og voru það allt hraustir menn. 45 Þá lögðu þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti. Í eftirförinni um þjóðvegina drápu þeir fimm þúsund manns, eltu þá allt til Gídóm og drápu enn af þeim tvö þúsund manns. 46 Þannig féllu alls af Benjamín á þeim degi tuttugu og fimm þúsund vopnaðra manna og voru það allt hraustir menn. 47 Þá lögðu þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, sex hundruð manns, og höfðust við hjá Rimmónkletti í fjóra mánuði. 48 En Ísraelsmenn sneru aftur til Benjamíníta og felldu þá með sverði, jafnt menn sem fénað og allt sem þeir fundu. Þeir lögðu einnig eld í allar borgirnar sem fyrir þeim urðu.