18 Ísraelsmenn héldu af stað, fóru upp til Betel, gengu til frétta við Guð og spurðu: „Hver okkar skal fara fyrstur í hernað gegn niðjum Benjamíns?“ Drottinn svaraði: „Júda skal fara fyrstur.“
19 Ísraelsmenn fóru af stað um morguninn og settu upp herbúðir sínar hjá Gíbeu. 20 Og Ísraelsmenn héldu til bardaga við Benjamín og fylktu sér til orrustu gegn þeim nálægt Gíbeu. 21 Þá fóru niðjar Benjamíns út úr Gíbeu og lögðu að velli tuttugu og tvö þúsund menn af Ísrael á þeim degi. 22 En lið Ísraelsmanna herti upp hugann og fylktu þeir sér að nýju til orrustu á sama stað og þeir höfðu fylkt sér daginn áður. 23 Og Ísraelsmenn fóru upp eftir og kveinuðu frammi fyrir Drottni allt til kvölds og þeir gengu til frétta við Drottin og spurðu: „Eigum við enn að leggja til orrustu við niðja Benjamíns, bróður okkar?“ Drottinn svaraði: „Farið á móti þeim.“
24 Héldu Ísraelsmenn nú gegn Benjamínítum næsta dag 25 og Benjamín fór út í móti þeim úr Gíbeu sama dag og lögðu þeir enn að velli átján þúsund manns af Ísraelsmönnum sem allir voru vopnaðir. 26 Þá fóru allir Ísraelsmenn og allt fólkið upp eftir, komu til Betel og höfðust þar við grátandi fyrir augliti Drottins og föstuðu þann dag til kvölds. Og þeir fórnuðu brennifórnum og heillafórnum fyrir augliti Drottins. 27 Síðan gengu Ísraelsmenn til frétta við Drottin en þar var sáttmálsörk Guðs í þá daga 28 og Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar, gegndi þjónustu fyrir augliti Drottins í þá daga. Þeir sögðu: „Eigum við enn að leggja til orrustu við niðja Benjamíns, bróður okkar, eða eigum við að hætta?“ Drottinn svaraði: „Farið, á morgun mun ég fá ykkur þá í hendur.“
29 Nú setti Ísrael menn í launsátur umhverfis Gíbeu.