Biblíulestur 10. desember – Dóm 19.22-30

2018-10-08T18:41:44+00:00Mánudagur 10. desember 2018|

22 En meðan þau voru að matast umkringdu illmenni nokkur úr borginni húsið, börðu á hurðina og kölluðu til húsbóndans, gamla mannsins: „Leiddu út manninn sem kominn er til þín svo að við getum kennt hans.“ 23 Þá gekk maðurinn, sem þarna réð húsum, út til þeirra og sagði við þá: „Nei, bræður mínir, fyrir alla muni fremjið ekki slíka óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn á heimili mitt fremjið þá ekki slíka svívirðu. 24 Hér er hjákona hans og mærin dóttir mín. Ég skal leiða þær út og þær megið þið taka nauðugar og gera við þær hvað sem ykkur langar en á þessum manni megið þið ekki fremja slíka svívirðu.“ 25 En mennirnir hlustuðu ekki á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og hratt henni út á strætið til þeirra og þeir nauðguðu henni og misþyrmdu alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann. 26 Þegar birta tók af degi kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins þar sem bóndi hennar var inni og lá hún þar uns bjart var orðið.
27 Þegar bóndi hennar fór á fætur um morguninn, lauk upp húsdyrunum, gekk út og ætlaði að halda af stað lá konan, það er hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. 28 Hann sagði þá við hana: „Stattu upp, við skulum halda af stað,“ en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann og maðurinn tók sig upp og hélt af stað heim til sín. 29 Þegar hann kom heim tók hann hníf, þreif hjákonu sína og bútaði hana sundur í tólf hluti og sendi þá út um allar byggðir Ísraels. 30 Og sérhverjum sem þetta sá varð að orði: „Ekki hefur slíkt gerst og ekki hefur slíkt sést frá því að Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi og allt fram á þennan dag. Hugleiðið þetta, ráðið ráðum ykkar og segið hvað ykkur líst.“

Title

Fara efst