Lok dómaratímans

Skurðgoð Míka

1 Maður hét Míka. Hann var frá Efraímsfjöllum. 2 Hann sagði við móður sína: „Þeir ellefu hundruð siklar silfurs, sem voru teknir frá þér og þú hefur beðið bölbæna fyrir í mín eyru, – það silfur er hér hjá mér. Það var ég sem tók það.“ Þá sagði móðir hans: „Drottinn blessi son minn.“ 3 Síðan skilaði hann móður sinni þessum ellefu hundruð siklum silfurs og móðir hans sagði: „Ég helga Drottni allt silfrið úr minni hendi til heilla fyrir son minn til þess að úr því verði gert líkneski, meitlað og steypt, og því fæ ég þér það nú aftur.“ 4 Þegar hann hafði skilað móður sinni silfrinu tók móðir hans tvö hundruð sikla silfurs og fékk þá gullsmið sem gerði úr þeim meitlað og steypt líkneski. Það var haft í húsi Míka. 5 Þessi maður, Míka, átti skurðgoðahús og hann bjó til hökullíkneski og húsgoð. Hann vígði einn sona sinna og varð hann prestur hans. 6 Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gerði það sem honum vel líkaði.
7 Í Betlehem í Júda var ungur maður af ætt Júda. Hann var Levíti og hafði komið sér þar fyrir. 8 Maður þessi fór burt úr borginni Betlehem í Júda til þess að fá sér vist hvar sem hann gæti. Á leið sinni kom hann upp í Efraímsfjöll til húss Míka. 9 Míka sagði við hann: „Hvaðan kemur þú?“ Hann svaraði: „Ég er Levíti frá Betlehem í Júda og er á ferðalagi til þess að leita mér vistar hvar sem ég get.“ 10 Þá sagði Míka við hann: „Sestu að hjá mér og vertu mér sem faðir og prestur. Ég mun gefa þér tíu sikla silfurs á ári og allan klæðnað þinn og viðurværi.“ Og Levítinn gekk inn til hans. 11 Levítinn féllst á að setjast að hjá manninum og fór hann með þennan unga mann sem einn af sonum sínum. 12 Míka setti Levítann inn í embættið og varð ungi maðurinn prestur hans og dvaldist í húsi Míka. 13 Þá sagði Míka: „Nú veit ég að Drottinn mun gera vel við mig af því að ég hef Levíta sem prest.“