Samson deyr

23 Nú söfnuðust höfðingjar Filistea saman til þess að færa Dagón,[ guði sínum, fórn mikla og gera sér glaðan dag enda sögðu þeir: „Guð okkar hefur selt óvininn Samson okkur í hendur.“ 24 Þegar menn sáu hann vegsömuðu þeir guð sinn og sögðu: „Guð okkar hefur gefið í okkar hendur fjandmanninn sem eytt hefur land okkar og drepið marga af okkar mönnum.“ 25 En er þeir gerðust glaðir sögðu þeir: „Látið sækja Samson til þess að skemmta okkur.“ Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni og varð hann að skemmta þeim en þeir höfðu sett hann milli súlnanna. 26 Þá sagði Samson við sveininn sem leiddi hann: „Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum sem húsið hvílir á svo að ég geti stutt mig við þær.“ 27 Húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filistea og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karlar og konur sem horfðu á meðan Samson skemmti.
28 Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: „Drottinn Guð, minnstu mín. Styrktu mig nú, Guð, í þetta eina sinn svo að ég geti hefnt mín á Filisteum fyrir bæði augu mín í einu.“ 29 Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina og þrýsti á. 30 Þá mælti Samson: „Deyi ég nú með Filisteum.“ Síðan lagðist hann á af öllu afli svo að húsið féll niður á höfðingjana og allt fólkið sem í því var. Þeir sem hann drap um leið og hann beið sjálfur bana voru fleiri en þeir er hann hafði drepið um ævina. 31 Bræður hans komu og allt ættfólk hans, tóku hann og fóru með hann þaðan og jörðuðu hann milli Sorea og Estaól í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.