16 Þetta er stærð hennar: 4500 álnir að norðanverðu og 4500 álnir að sunnanverðu, einnig 4500 álnir að austanverðu og 4500 álnir að vestanverðu. 17 Beitiland borgarinnar skal ná yfir 250 álnir til norðurs, 250 álnir til suðurs, 250 álnir til austurs og 250 álnir til vesturs. 18 Skákin sem eftir er með fram hinni heilögu spildu er 10.000 álnir í austur og 10.000 álnir í vestur. Afraksturinn af því landi á að vera verkamönnunum í borginni til matar. 19 Verkamenn úr borginni, sem vinna á landspildunni, skulu vera úr öllum ættbálkum Ísraels. 20 Allt afgjaldslandið á að vera 25.000 álnir sinnum 25.000 álnir. Þið eigið að láta af hendi allt þetta ferhyrnda landsvæði ásamt eignarlandi borgarinnar sem heilagt afgjald.
21 Landshöfðinginn fær það land sem eftir er beggja vegna hins heilaga afgjaldslands og landareignar borgarinnar, með fram 25.000 álnum lands í austur að austurlandamærunum og með fram 25.000 álnum lands í vestur, að vesturlandamærunum. Báðar þessar landspildur, með fram hlutum ættbálkanna, skal landshöfðinginn fá. Spildan sem er heilagt afgjald og hús helgidómsins stendur á er í miðju landi landshöfðingjans. 22 Eignarlönd Levítanna og borgarinnar eiga að vera mitt í því landi sem landshöfðinginn fær. Það sem landshöfðinginn fær er á milli landspildu Júda og lands Benjamíns. Það skal landshöfðinginn fá.
23 Í hlut ættbálkanna sem eftir eru kemur: Benjamín fær einn hlut frá austurmörkunum til vesturmarkanna, 24Símeon fær einn hlut með fram landi Benjamíns frá austurmörkum til vesturmarka, 25 Íssakar fær einn hlut með fram landi Símeons, frá austurmörkunum til vesturmarkanna, 26 Sebúlon fær einn hlut með fram landi Íssakars, frá austurmörkum til vesturmarka, 27 Gað fær einn hlut með fram landi Sebúlons, frá austurmörkum til vesturmarka. 28 Með fram landi Gaðs liggja suðurmörkin í Suðurlandi frá Tamar að vötnunum við Meríba Kades og læknum sem rennur í hafið mikla.
29 Þetta er landið sem þið eigið að skipta á milli ættbálka Ísraels með hlutkesti og þetta eru hlutir þeirra, hvers um sig, segir Drottinn Guð.

Borgin helga og hlið hennar

30 Þetta eru útgönguhlið borgarinnar að norðan en norðurhlið borgarinnar mælist 4500 álnir. 31 Hlið borgarinnar bera nöfn ættbálka Ísraels. Þrjú hlið snúa í norður: eitt hlið Rúbens, eitt hlið Júda og eitt hlið Leví. 32 Austurhlið borgarinnar mælist 4500 álnir og hefur þrjú hlið: eitt hlið Jósefs, eitt hlið Benjamíns og eitt hlið Dans. 33 Suðurhliðin mælist 4500 álnir og hefur þrjú hlið: eitt hlið Símeons, eitt hlið Íssakars og eitt hlið Sebúlons. 34 Vesturhliðin mælist 4500 álnir og hefur þrjú hlið: eitt hlið Gaðs, eitt hlið Assers og eitt hlið Naftalí. 35 Ummál borgarinnar er 18.000 álnir. Héðan í frá ber borgin nafnið: Drottinn er hér.