1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðsmaskíl.
2Hlýð, Guð, á bæn mína,
fel þig eigi þegar ég sárbæni þig.
3Hlusta og svara mér,
ég er órór og kveina,
4skelfingu lostinn yfir hrópum óvinarins,
ásókn hins óguðlega,
því að þeir steypa yfir mig ógæfu
og ofsækja mig grimmilega.
5Hjartað berst ákaft í brjósti mér,
dauðans angist kemur yfir mig.
6Ótti og skelfing nísta mig
og hryllingur fer um mig allan
7svo að ég segi: „Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan,
þá mundi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8mundi svífa langt burt,
vera um kyrrt í eyðimörkinni. (Sela)
9Ég mundi flýta mér að finna hæli
fyrir þjótandi vindum og veðri.“
10Sundra þeim, Drottinn, rugla mál þeirra
því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11Nótt sem dag ganga þær á múrnum umhverfis hana
en ranglæti og armæða eru þar inni fyrir.
12Glötun er inni í henni,
ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar
13því að það er eigi óvinur sem hæðir mig,
það gæti ég þolað,
og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig,
fyrir honum gæti ég farið í felur,
14heldur þú, jafningi minn,
vinur minn og félagi.
15Við vorum ástúðarvinir
er við gengum í mannþrönginni í hús Guðs.
16Dauðinn komi yfir þá,
stígi þeir lifandi niður til heljar
því að illskan á sér bústað í barmi þeirra.