16 Svo segir Drottinn Guð: Ef landshöfðinginn gefur einhverjum af sonum sínum hluta af erfðalandi sínu að gjöf skal hún verða eign sona hans. Hún verður eign þeirra sem erfðaland. 17 En gefi hann einhverjum af þjónum sínum hluta af erfðalandi sínu skal hann halda gjöfinni til næsta lausnarárs. Þá skal landshöfðinginn fá hana aftur. En erfðaland sona hans skal haldast í eigu þeirra. 18 Landshöfðinginn má ekki taka neitt af erfðalandi þjóðarinnar með yfirgangi. Hann skal gefa sonum sínum arf af eigin eign svo að enginn af þjóð minni verði hrakinn af eign sinni.

Eldhúsin í musterinu

19 Síðan leiddi maðurinn mig í gegnum innganginn sem er við hliðið að hinum heilögu álmum sem eru ætlaðar prestunum og snúa í norður. Þar vestast sá ég stað einn. 20 Þá sagði hann við mig: „Þetta er staðurinn þar sem prestarnir sjóða sektarfórnina og syndafórnina og hér baka þeir kornfórnina svo að þeir þurfi ekki að fara með hana út í ytri forgarðinn og helga fólkið.“
21 Hann leiddi mig því næst út í ytri forgarðinn og fór með mig út í fjögur horn forgarðsins. Þá sá ég að í hverju horni forgarðsins var enn forgarður, 22 fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu á breidd. Þessir fjórir forgarðar í hornunum voru jafnstórir. 23 Umhverfis forgarðana fjóra var múr og allt umhverfis voru eldstæði upp við múrveggina. 24 Þá sagði hann við mig: „Þetta eru eldstæðin þar sem þjónar musterisins eiga að sjóða sláturfórnir fólksins.“