4 Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni á hvíldardegi, er sex lýtalaus lömb og einn lýtalaus hrútur. 5 Kornfórnin er ein efa með hrút en með lömbum svo mikið sem honum er laust í hendi. Með hverri efu skal vera ein hín af olíu. 6 Tunglkomudaginn skal fórnin vera lýtalaust naut úr stórgripahjörðinni, sex lömb og einn hrútur, allt lýtalausir gripir. 7 Hann skal leggja fram eina efu með nautinu og eina efu með hrútnum en með lömbunum það sem honum er laust í hendi. Með hverri efu skal vera ein hín af olíu.
8 Þegar landshöfðinginn kemur á hann að ganga inn um forsal hliðsins og sömu leið út. 9 En þegar fólkið í landinu kemur til að ganga fyrir auglit Drottins á hátíðunum skal sá sem kemur inn um norðurhliðið til að falla þar fram ganga út um suðurhliðið. Sá sem kemur inn um suðurhliðið til að falla þar fram skal ganga aftur út um norðurhliðið. Enginn má fara aftur út um það hlið sem hann kom inn um, heldur á hver maður að fara út um hliðið sem er gegnt honum. 10 Landshöfðinginn á að vera á meðal þeirra. Hann á að koma inn um leið og þeir og ganga út samtímis þeim.
11 Á hátíðunum og hátíðarsamkomunum skal kornfórnin vera ein efa með hverju nauti og ein efa með hverjum hrút en með lömbunum það sem laust er í hendi landshöfðingjanum og ein hín af olíu með hverri efu.
12 Þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, hvort heldur það er brennifórn eða heillafórn sem hann færir Drottni sem sjálfviljafórn, skal opna fyrir honum hliðið sem snýr í austur. Hann skal færa brennifórn sína eða heillafórn eins og hann færir þær á hvíldardegi. Því næst skal hann ganga út og loka hliðinu á eftir sér.
13 Þú skalt færa Drottni lýtalaust veturgamalt lamb í brennifórn dag hvern. Þú skalt færa það í fórn hvern morgun. 14 Hvern morgun skalt þú færa með því í kornfórn einn sjötta hlut úr efu og einn þriðja úr hín af olíu til að dreypa á hveitimjölið og er það kornfórn til Drottins. Þetta er ævarandi ákvæði um hina reglubundnu fórn. 15 Þeir skulu færa lambið, kornfórnina og olíuna hvern morgun sem reglubundna brennifórn.