45. kafli

13 Þetta er afgjaldið sem þið skuluð greiða: Einn sjötta úr efu af hverjum gómer hveitis og einn sjötta efu af hverjum gómer byggs. 14 Ákvæði um olíu eru: Olía er mæld með bat, tíu böt eru einn gómer því að tíu böt eru einn kór. Greiða skal tíunda hluta úr bat af hverjum kór.
15 Greiða skal eitt lamb af hjörð með tvö hundruð fjár fyrir ættbálka Ísraels til kornfórnar, brennifórnar og heillafórnar og til friðþægingar fyrir þá, segir Drottinn Guð.
16 Allir landsmenn skulu greiða þetta afgjald til landshöfðingjans yfir Ísrael. 17 En landshöfðingjanum ber að sjá um brennifórn, kornfórn og dreypifórn á hátíðum, tunglkomudögum og hvíldardögum, á öllum hátíðarsamkomum Ísraelsmanna. Hann skal láta færa syndafórn, kornfórn, brennifórn og heillafórnir til að friðþægja fyrir Ísraelsmenn.

Hátíðir

18 Svo segir Drottinn Guð: Á fyrsta degi fyrsta mánaðarins skaltu sækja lýtalaust naut úr nautgripahjörðinni og hreinsa helgidóminn af synd. 19 Presturinn skal taka nokkuð af blóði dýrsins, sem ætlað er til syndafórnar, og bera það á dyrastafi hússins, á fjögur horn fótstalls altarisins og á dyrastafi hliðsins að innri forgarðinum. 20 Eins skaltu gera á sjöunda degi mánaðarins vegna þeirra sem syndgað hafa án ásetnings eða af vanþekkingu. Þið skuluð friðþægja fyrir húsið.
21 Þið skuluð halda páskahátíð fjórtánda dag fyrsta mánaðarins. Í sjö daga skal borða ósýrt brauð. 22 Á þeim degi skal landshöfðinginn reiða fram naut til syndafórnar fyrir sjálfan sig og allt fólkið í landinu. 23 Hann skal einnig færa Drottni brennifórn þessa sjö hátíðardaga. Hann skal reiða fram sjö lýtalaus naut og sjö lýtalausa geithafra á hverjum degi þessa sjö daga og geithafur í syndafórn hvern dag. 24 Einnig skal hann leggja fram eina efu í kornfórn með hverju nauti og eina efu með hverjum geithafri og eina hín af olíu með hverri efu.
25 Á hátíðinni fimmtánda dag sjöunda mánaðarins skal hann reiða þetta sama fram til syndafórnar, brennifórnar og kornfórnar og það sama af olíu í sjö daga.

46. kafli

Fórnir

1 Svo segir Drottinn Guð: Hliðið að innri forgarðinum, sem snýr í austur, skal vera lokað sex virku dagana en á hvíldardaginn skal því lokið upp og einnig á tunglkomudaginn. 2 Þá skal landshöfðinginn koma að utan og ganga inn í hliðið í gegnum forsal þess. Hann skal nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þegar prestarnir hafa fært brennifórn hans og heillafórn skal hann falla fram á þröskuld hliðsins og ganga því næst út. Hliðinu skal ekki loka fyrr en um kvöldið. 3 Almenningur í landinu skal einnig falla fram fyrir augliti Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.