Lokað hlið

1 Maðurinn leiddi mig aftur að ytra hliði helgidómsins sem snýr í austur. 2 Þá sagði Drottinn við mig: Þetta hlið skal vera lokað. Ekki má opna það og enginn maður má ganga um það. Þar sem Drottinn Guð Ísraels kom inn um það skal það vera lokað. 3 Þar sem landshöfðinginn er landshöfðingi má hann sitja inni í hliðinu og neyta matar frammi fyrir augliti Drottins. Hann á að ganga inn í hliðið úr forsal hliðbyggingarinnar og ganga út sömu leið.

Levítar og prestar

4 Þá leiddi maðurinn mig um norðurhliðið að framhlið hússins. Þegar ég horfði þangað sá ég að dýrð Drottins fyllti hús Drottins og ég féll fram á ásjónu mína. 5 Þá sagði Drottinn við mig: Mannssonur, taktu nú vel eftir og horfðu með augum þínum og hlustaðu með eyrum þínum á allt sem ég segi þér um öll ákvæðin um hús Drottins og öll lögin um það. Hafðu einnig nánar gætur á inngöngudyrum musterisins og öllum útgöngudyrum helgidómsins.
6 Þú skalt segja við hina þverúðugu, við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Nú er nóg komið af öllum ykkar viðurstyggðum, Ísraelsmenn. 7 Þið hafið leyft útlendingum, sem hvorki eru umskornir á hjarta né holdi, að koma inn í helgidóm minn og saurga hann, hús mitt, þegar þið hafið borið fram mat minn, mör og blóð. Þið hafið rofið sáttmálann við mig með allri ykkar svívirðu. 8 Þið önnuðust ekki þjónustuna í helgidómi mínum en létuð útlendinga annast hana fyrir ykkur í helgidómi mínum.
9 Þess vegna segir Drottinn svo: Enginn útlendingur, sem hvorki er umskorinn á hjarta né holdi, má koma inn í helgidóm minn, enginn af þeim útlendingum sem búa innan um Ísraelsmenn.