Brennifórnaraltarið

13 Þetta er stærð altarisins mæld í álnum en hver alin samsvarar venjulegri alin að viðbættri einni þverhönd: Rennan umhverfis það var ein alin á dýpt og ein á breidd og brúnin allt um kring á barmi hennar er ein spönn. Þetta var fótstallur altarisins: 14 Frá rennunni í jörðinni voru tvær álnir að neðsta stalli þess sem var ein alin á breidd. Frá litla stallinum voru fjórar álnir að þeim stóra sem var ein alin á breidd. 15 Eldstæðið var fjórar álnir á hæð og ein á breidd og fjögur horn risu upp frá eldstæðinu. 16 Eldstæðið var tólf álnir á lengd og tólf á breidd, það var ferningur. 17 Stóri miðstallurinn var fjórtán álnir á lengd og fjórtán á breidd með fjórum jöfnum hliðum. Brúnin umhverfis var hálf alin á breidd og rennan í kringum ein alin. Þrepin upp að altarinu sneru í austur.

Vígsla brennifórnaraltarisins

18 Maðurinn sagði við mig: Mannssonur, svo segir Drottinn Guð: Þetta eru lagaákvæðin um altarið: Daginn sem það hefur verið reist til að færa á því brennifórn og dreypa á það blóði 19 skaltu fá Levítaprestunum naut úr stórgripahjörðinni í syndafórn, en Levítaprestarnir eru þeir af niðjum Sadóks sem mega nálgast mig til að þjóna mér, segir Drottinn Guð. 20 Þú skalt taka nokkuð af blóði þess og bera það á fjögur horn altarisins, fjögur horn stallsins og á brúnina allt umhverfis. Þannig skaltu hreinsa altarið af synd og friðþægja fyrir það. 21 Síðan skaltu taka syndafórnarnautið og brenna það á torginu, utan við helgidóminn.
22 Daginn eftir skaltu færa lýtalausan geithafur í syndafórn og altarið skal hreinsað af synd eins og það var hreinsað af synd með nautinu. 23 Þegar þú hefur lokið við að hreinsa það af synd skaltu leiða fram lýtalaust naut úr stórgripahjörðinni og lýtalausan hrút úr sauðahjörðinni 24 og færa þau fram fyrir auglit Drottins. Þegar prestarnir hafa kastað yfir þau salti skulu þeir færa þau Drottni að brennifórn.
25 Dag hvern, í sjö daga, skaltu búa geithafur til syndafórnar. Einnig skal naut úr nautahjörðinni og hrútur úr sauðahjörðinni, bæði lýtalaus dýr, búin til fórnar. 26 Í sjö daga skal friðþægt fyrir altarið, það skal hreinsað og vígt. 27 Þannig skulu þessir dagar líða. En á áttunda degi og framvegis skulu prestarnir færa brennifórnir ykkar og heillafórnir á altarinu. Og ég mun taka ykkur náðarsamlega, segir Drottinn Guð.