Dýrð Drottins snýr aftur til musterisins

1 Maðurinn leiddi mig að hliðinu sem snýr í austur. 2 Þá sá ég dýrð Guðs Ísraels koma úr austurátt. Þá heyrðist hljóð, sem líktist nið mikilla vatna, og jörðin ljómaði af dýrð hans. 3 Sýnin sem ég sá var eins og sú sem ég sá þegar hann kom til að leggja borgina í eyði. Sýnin var eins og sýnin sem ég sá við Kebarfljót. Ég lét fallast á ásjónu mína. 4 Dýrð Drottins fór inn í húsið um hliðið sem snýr í austur. 5 En andinn hóf mig upp og fór með mig inn í innri forgarðinn. Þá sá ég að húsið var fullt af dýrð Drottins.
6 Ég heyrði að einhver ávarpaði mig innan úr húsinu, á meðan maðurinn stóð við hlið mér, 7 og sagði við mig: Mannssonur, þetta er staður hásætis míns og skör fóta minna. Hér mun ég ævinlega búa á meðal Ísraelsmanna. En Ísraelsmenn skulu aldrei framar saurga mitt heilaga nafn, hvorki þeir né konungar þeirra. Það skulu þeir hvorki gera með hórdómi sínum né líkum konunga sinna.
8 En þeir settu þröskuld sinn við minn þröskuld og dyrastafi sína við mína dyrastafi svo að aðeins skildi veggur milli mín og þeirra og þeir saurguðu mitt heilaga nafn með viðbjóðslegri breytni sinni svo að ég eyddi þeim í heift minni. 9 Nú skulu þeir fjarlægja hórdóminn og lík konunga sinna frá mér, þá mun ég ævinlega búa mitt á meðal þeirra.
10 Þú, mannssonur, skýrðu musterið út fyrir Ísraelsmönnum svo að þeir blygðist sín fyrir afbrot sín. Þeir skulu mæla byggingarnar 11 og munu þá blygðast sín fyrir allt sem þeir hafa gert. Þú skalt lýsa útliti hússins, innréttingu þess, útgöngum og inngöngum og öllum fyrirmælum og reglum um það. Skráðu allt fyrir augum þeirra og þeir skulu halda öll fyrirmæli og reglur um það og breyta eftir þeim.
12 Þetta eru lögin um musterissvæðið: Allt svæðið efst á fjallinu, allt í kring, er háheilagt. Þetta eru lögin um musterissvæðið.