1 Því næst fór maðurinn með mig út í ytri forgarðinn í norður. Hann leiddi mig inn í álmuna gegnt afmarkaða svæðinu og byggingunni norðan við það. 2 Hún var hundrað álnir á lengd norðan megin og fimmtíu á breidd. 3 Hún var gegnt afmarkaða svæðinu sem var tuttugu álnir á breidd og hluti af innri forgarðinum og gegnt steingólfinu sem var hluti af ytri forgarðinum. Byggingin var reist á stöllum á þremur hæðum. 4 Framan við herbergin var gangur sem sneri inn á við, tíu álnir á breidd og hundrað á lengd. Dyrnar inn í herbergin voru að norðanverðu. 5 Efstu herbergin voru styttri en herbergin á neðstu hæðinni og miðhæðinni því að stallarnir tóku nokkurt rúm. 6 Byggingin var á þremur hæðum en engar súlur voru í henni eins og súlurnar í forgörðunum. Hún var því byggð á stöllum og minnkuðu herbergin eftir því sem ofar dró frá neðstu hæð til miðhæðar. 7 Utan við álmurnar og með fram þeim var múr. Hann lá í áttina að ytri forgarðinum framan við álmurnar og var fimmtíu álnir á lengd. 8 Þar sem herbergin, sem sneru að ytri forgarðinum, voru fimmtíu álnir á lengd var allur múrinn hundrað álnir á lengd. 9 Gengið var inn í neðstu herbergin að austan þegar komið var frá ytri forgarðinum 10 við enda múrsins sem afmarkaði forgarðinn.
Sunnan við afmarkaða svæðið og við bygginguna voru álmur með herbergjum. 11 Framan við þær lá gata. Þessi herbergi voru áþekk hinum sem voru norðan megin. Þau voru jafnlöng og jafnbreið og þau og á þeim voru sams konar dyr, tilhögun þeirra var eins og hurðirnar jafnmargar og í herbergjunum að norðanverðu. 12Inngangur að dyrum suðurherbergjanna sneri í austur, við enda götunnar sem lá með fram múrnum.
13 Maðurinn sagði við mig: „Herbergin í álmunni norðan megin og í álmunni sunnan megin við afmarkaða svæðið eru heilög herbergi. Þar eiga prestarnir, sem nálgast Drottin, að neyta hinna háheilögu fórnargjafa. Þar eiga þeir að setja hinar háheilögu fórnargjafir, kornfórn, syndafórn og sektarfórn, því að þessi staður er heilagur. 14 Þegar prestarnir eru komnir þar inn mega þeir ekki ganga beint úr hinu heilaga herbergi út í ytri forgarðinn. Þeir eiga að skilja klæði sín, sem þeir hafa þjónað í, eftir í þessu herbergi því að þau eru heilög. Þegar þeir hafa klæðst öðrum fötum mega þeir fara þangað sem fólkið er.“

Stærð musterissvæðisins

15 Þegar maðurinn hafði lokið við að mæla musterissvæðið innanvert leiddi hann mig út um hliðið sem snýr í austur og mældi það á alla vegu. 16 Hann mældi austurhliðina með mælistikunni, hún var fimm hundruð álnir mæld með mælistikunni. Því næst sneri hann við 17 og mældi norðurhliðina, hún var fimm hundruð álnir mæld með mælistikunni. Þá sneri hann við 18 og mældi suðurhliðina, hún var fimm hundruð álnir mæld með mælistikunni. 19 Hann sneri sér að vesturhliðinni og mældi hana, hún var fimm hundruð álnir mæld með mælistikunni. 20 Hann mældi fjórar hliðar musterissvæðisins. Umhverfis það var múrveggur, hann var fimm hundruð álnir á lengd og fimm hundruð á breidd til þess að skilja heilagt frá því sem ekki er heilagt.