40. kafli

35 Þá fór hann með mig að norðurhliðinu og mældi það. Allt var jafnstórt og í hinum, 36 hliðarstúkurnar, stoðirnar og forsalurinn. Á því voru gluggar allt í kring. Hliðið var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 37 Forsalur þess sneri að ytri forgarðinum og stoðir þess voru skreyttar pálmum báðum megin. Átta þrep lágu upp að því.
38 Þarna var sérstakt herbergi og opnuðust dyr þess inn í forsal hliðsins. Þar var brennifórnin þvegin. 39 Í forsal hliðsins stóðu tvö borð, hvort sínum megin. Á þeim átti að slátra dýrum til brenni-, syndar- og sektarfórna. 40 Utan við hliðarvegginn, við uppganginn og innganginn í hliðið sem snýr í norður, stóðu tvö borð og önnur tvö við hinn hliðarvegg forsalar hliðsins. 41 Voru fjögur borð við hliðarveggi hliðsins beggja vegna, alls átta borð sem fórnardýrum var slátrað á.
42 Brennifórnarborðin fjögur voru gerð úr tilhöggnum steinum. Þau voru ein og hálf alin á lengd, ein og hálf á breidd og ein alin á hæð. Inni í húsinu var komið fyrir hillum allt í kring, sem voru ein þverhönd á breidd. 43 Á þær voru áhöldin lögð, sem notuð voru til að slátra dýrum í brenni- og sláturfórn, en fórnarkjötið var lagt á borðin.

Innri forgarðurinn og musterisbyggingin

44 Utan við innra hliðið í innri forgarðinum voru tvær álmur. Önnur var við hliðarvegg norðurhliðsins, sem snýr í suður, og hin við hliðarvegg suðurhliðsins sem veit í norður. 45 Hann sagði við mig: „Álman sem snýr í suður er ætluð prestunum sem gegna þjónustu í musterinu. En álman sem snýr í norður er ætluð prestunum sem gegna þjónustu við altarið. 46 Þeir eru niðjar Sadóks og eru þeir einu af niðjum Leví sem mega nálgast Drottin til að þjóna honum.“
47 Hann mældi forgarðinn. Hann var ferningur, hundrað álnir á lengd og hundrað á breidd, og altarið stóð fyrir framan húsið.
48 Því næst leiddi hann mig inn í forsal musterisins og mældi stoðirnar í forsalnum. Þær voru fimm álnir hvorum megin. Inngangurinn í hliðið var fjórtán álnir á breidd og hliðarveggirnir við innganginn voru hvor um sig þrjár álnir. 49 Forsalurinn var tuttugu álnir á breidd og tólf á lengd og lágu tíu þrep upp að honum. Súlur voru við stoðirnar, ein hvorum megin.

41. kafli

1 Að svo búnu leiddi hann mig inn í musterissalinn og mældi stoðirnar. Þær voru sex álnir að þykkt beggja vegna. 2 Dyrnar voru tíu álnir á breidd og hliðarveggirnir báðum megin við dyrnar voru hvor um sig fimm álnir. Því næst mældi hann lengd musterissalarins og var hann fjörutíu álnir á lengd en tuttugu á breidd.