17 Því næst leiddi hann mig inn í ytri forgarðinn. Þar voru herbergi og var allur forgarðurinn steinlagður. Þrjátíu herbergi vissu út að steingólfinu. 18 Steingólfið náði að hliðarvegg, jafnlangt honum. Þetta var neðra steingólfið. 19 Þá mældi hann einnig fjarlægðina frá framhlið neðra hliðsins að úthlið innra hliðsins, það voru hundrað álnir.
20 Hann mældi einnig lengd og breidd þess hliðs í ytri forgarðinum sem snýr í norður. 21 Í því voru þrjár hliðarstúkur hvorum megin, forsalur og stoðir sem voru jafnstórar og í hinu hliðinu. Hliðið var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 22 Gluggarnir á forsal þessa hliðs og pálmaskreytingin í honum voru eins og í austurhliðinu. Lágu sjö þrep upp að því. Forsalur þess sneri inn á við. 23 Gegnt norðurhliðinu og austurhliðinu var hlið inn í innri forgarðinn. Hann mældi fjarlægðina frá hliði til hliðs og var hún hundrað álnir.
24 Því næst leiddi hann mig í suður. Þar var hlið sem sneri í suður. Hann mældi stoðir þess og forsal sem voru jafnstór og í hinum hliðunum. 25 Á hliðinu voru gluggar og einnig allt í kring á forsal þess. Þeir voru eins og hinir fyrri. Hliðið var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 26 Sjö þrep lágu upp að hliðinu og forsalur þess sneri inn á við. Stoðir hliðsins voru skreyttar pálmum báðum megin. 27 Í innri forgarðinum var annað hlið sem sneri í suður. Hann mældi fjarlægðina milli hliðanna sem sneru í suður og var hún hundrað álnir.
28 Því næst fór hann með mig um suðurhliðið inn í innri forgarðinn. Hann mældi suðurhliðið og var það jafnstórt hinum hliðunum. 29 Hliðarstúkurnar í því, stoðirnar og forsalurinn voru af sömu stærð og í hinum hliðunum. Á hliðinu og forsal þess voru gluggar allt í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 30 Og allt í kring voru forsalir, tuttugu og fimm álna langir og fimm álna breiðir. 31 Forsalur hliðsins sneri að ytri forgarðinum. Stoðirnar í því voru skreyttar með pálmum og átta þrep lágu upp að því.
32 Síðan fór hann með mig inn í innri forgarðinn að austanverðu. Hann mældi hliðið og var það jafnstórt hinum. 33 Hliðarstúkur hliðsins, stoðir og forsalur voru af sömu stærð og í hinum hliðunum. Á hliðinu og forsal þess voru gluggar allt í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm á breidd. 34 Forsalur þess sneri að ytri forgarðinum og stoðir þess voru skreyttar pálmum báðum megin. Átta þrep lágu upp að því.