Nýtt musteri

1 Í ársbyrjun, tíunda dag mánaðarins á tuttugasta og fimmta árinu frá því að við vorum fluttir í útlegð, á fjórtánda ári eftir fall borgarinnar, einmitt þann dag kom hönd Drottins yfir mig og flutti mig 2 í guðdómlegum sýnum til lands Ísraels. Hann setti mig á mjög hátt fjall og sunnan megin á því var einhver byggð sem líktist borg. 3 Þangað fór hann með mig og þá sá ég mann sem var á að líta eins og hann væri úr eir. Hann hafði línþráð og mælikvarða í hendi og stóð í hliðinu. 4 Maðurinn sagði við mig: „Mannssonur, horfðu með augum þínum og hlustaðu með eyrum þínum. Taktu vel eftir öllu sem ég sýni þér því að þú varst fluttur hingað til þess að ég sýndi þér það. Skýrðu Ísraelsmönnum frá öllu sem þú sérð.“

Ytri forgarðurinn og hlið hans

5 Múrveggur var utan um musterið og náði alveg í kringum það. Maðurinn hafði mælistiku í hendi sér sem var sex álnir á lengd. Hver alin var venjuleg alin að viðbættri einni þverhönd. Hann mældi þykkt múrsins og reyndist hún vera ein mælistika og hæðin ein stika.
6 Hann gekk þá inn í hliðið, sem snýr í austur, og upp þrepin í því og mældi síðan þröskuldinn í hliðinu sem var ein mælistika á breidd. 7 Hann mældi einnig hliðarstúkur hliðsins sem reyndust ein mælistika á lengd og ein á breidd. Á milli stúknanna voru fimm álnir. Sá þröskuldur hliðsins sem sneri að forsal hliðsins að innanverðu var ein mælistika. 8 Síðan mældi hann forsal hliðsins 9 sem reyndist átta álnir og stoðirnar í honum tvær álnir. Forsalur hliðsins vissi að musterinu. 10 Í austurhliðinu voru þrjár stúkur hvorum megin. Stúkurnar voru allar jafnstórar og stoðirnar beggja vegna voru einnig jafnstórar. 11 Þá mældi hann einnig dyravídd hliðsins og var hún tíu álnir og vegurinn gegnum hliðið þrettán álnir. 12 Framan við stúkurnar var girðing, sem var ein alin, og stúkurnar báðum megin voru sex álnir. 13 Þá mældi hann breidd hliðsins frá bakvegg einnar stúku að bakvegg stúkunnar á móti og var hún tuttugu og fimm álnir. Dyrnar á stúkunum stóðust á. 14 Hann mældi einnig forsal hliðsins. Var hann tuttugu og fimm álnir og sex álnir við stoð forgarðsins. 15 Frá framhlið hliðbyggingarinnar með innganginum í hliðið og að þeirri hlið forsalarins sem sneri að musterinu voru fimmtíu álnir. 16 Á stúkunum og stoðum þeirra voru gluggar sem lokað var með grindum. Þeir opnuðust allt umhverfis inn í hliðið. Eins voru gluggar allt umhverfis inn í forsalinn og stoðir hans voru skreyttar pálmum.