42 En daginn eftir fór fólkið út á akurinn og sögðu menn Abímelek frá þessu. 43 Þá tók hann lið sitt, skipti því í þrjár sveitir og leyndist á akrinum. Þegar hann sá fólkið koma út úr borginni réðst hann á það og vann sigur á því. 44 Abímelek sjálfur og sveitin, sem með honum var, skundaði fram og nam staðar fyrir borgarhliðinu en báðar hinar sveitirnar gerðu áhlaup á alla þá sem voru úti á víðavangi og unnu sigur á þeim. 45 Því næst herjaði Abímelek á borgina allan þann dag, vann hana og drap fólkið sem í henni var. Hann braut síðan niður borgina og stráði yfir hana salti.[
46 Þegar allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemturni, heyrðu þetta gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmálaguðs. 47 Og er Abímelek var sagt frá því að allir menn í Síkemturni hefðu safnast þar saman 48 fór hann upp á Salmónfjall með allt lið sitt. Og Abímelek tók öxi í hönd sér og hjó af trjágrein, hóf hana á loft og lagði á herðar sér og sagði við liðið sem með honum var: „Gerið nú sem skjótast það sama og þið sáuð mig gera.“
49 Þá hjuggu allir mennirnir hver sína grein, fylgdu Abímelek og báru þær að hvelfingunni og lögðu síðan eld í hvelfinguna yfir þeim. Þannig dóu allir menn í Síkemturni, hér um bil þúsund karlar og konur.
Dauði Abímeleks
50 Síðan fór Abímelek til Tebes og settist um Tebes og vann hana. 51 Í miðri borginni var rammgerður turn. Þangað flýðu allir borgarbúar, jafnt karlar sem konur. Lokuðu þeir sig þar inni og fóru síðan upp á þakið á turninum. 52 Nú kom Abímelek að turninum og gerði árás á hann. En þegar hann gekk að dyrum turnsins til þess að leggja eld í hann 53 kastaði kona ein efri kvarnarsteini í höfuð Abímeleks og mölvaði sundur hauskúpuna. 54 Þá kallaði hann sem skjótast til skjaldsveins síns og mælti við hann: „Bregð þú sverði þínu og dreptu mig svo að ekki verði sagt um mig: Kona drap hann.“ Þá lagði sveinn hans hann í gegn og varð það hans bani. 55 Þegar Ísraelsmenn sáu að Abímelek var fallinn fóru þeir hver til síns heima. 56 Þannig launaði Guð illsku Abímeleks sem hann hafði sýnt föður sínum þegar hann drap sjötíu bræður sína. 57 Og Guð lét alla illsku Síkembúa koma þeim í koll. Rættist þannig á þeim formæling Jótams Jerúbbaalssonar.