22 Abímelek réð nú fyrir Ísrael í þrjú ár. 23 Þá sendi Guð anda sundurþykkis milli Abímeleks og Síkembúa, svo að Síkembúar brugðu trúnaði við Abímelek, 24 til þess að hefnd gæti komið fyrir níðingsverkið á sjötíu sonum Jerúbbaals og að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek, bróður þeirra, sem hafði drepið þá, og Síkembúa sem höfðu hjálpað honum að drepa bræður sína. 25 Settu Síkembúar þá menn í fyrirsát gegn honum hæst á fjöllum uppi og rændu þeir alla þá er um veginn fóru fram hjá þeim. Og Abímelek var sagt frá þessu.
26 Þá komu Gaal Ebedsson og bræður hans. Þeir héldu inn í Síkem og Síkembúar fengu traust á honum. 27Þeir fóru út á akurinn, tíndu vínber í víngörðum sínum og tróðu þau og héldu hátíð, fóru inn í musteri guðs síns, átu og drukku og bölvuðu Abímelek. 28 Og Gaal Ebedsson sagði: „Hver er Abímelek og hverjir erum við í Síkem, að við eigum að lúta honum? Er hann ekki sonur Jerúbbaals og Sebúl höfuðsmaður hans? Þessir menn lutu mönnum Hemors, stofnanda Síkem. Hví skyldum við lúta honum? 29 Ef þetta fólk væri undir minni stjórn skyldi ég ekki vera lengi að reka Abímelek burt. Ég mundi skora á Abímelek: Fylktu liði og gakktu fram.“
30 Er Sebúl, höfuðsmaður borgarinnar, frétti ummæli Gaals Ebedssonar varð hann afar reiður, 31 sendi menn á laun til Abímeleks og lét segja honum: „Gaal Ebedsson og bræður hans eru komnir til Síkem og æsa þeir borgina upp gegn þér. 32 Farðu nú af stað að næturlagi með liðið sem hjá þér er og feldu þig á ökrunum. 33Að morgni, þegar sól rennur upp, skalt þú vera snemma á fótum og ráðast á borgina. Þá mun hann og lið hans fara út á móti þér og þú skalt þá fara með hann eins og færi gefst.“
34 Þá fór Abímelek af stað um nótt með allt lið sitt og þeir leyndust á fjórum stöðum fyrir Síkem. 35 Þegar Gaal Ebedsson kom út og nam staðar fyrir utan borgarhliðið spratt Abímelek upp úr launsátrinu og liðið sem með honum var. 36 Gaal sá liðið og sagði við Sebúl: „Sjá, þarna kemur fólk ofan af fjöllunum.“ En Sebúl sagði við hann: „Þú sérð skuggana í fjöllunum og heldur að það séu menn.“ 37 En Gaal þagnaði ekki og sagði: „Þarna kemur fólk niður frá Tabbúrerets og annar hópur kemur frá Elónmeónením.“ 38 Þá mælti Sebúl við hann: „Hvar
eru nú stóryrði þín? Þú sagðir: Hver er Abímelek? Ber okkur að lúta honum? Er þetta ekki liðið sem þú fyrirleist? Farðu út og berstu við það.“ 39 Fór Gaal þá fyrir Síkembúum og barðist við Abímelek. 40 En Abímelek sótti svo hart að honum að hann flýði fyrir honum og varð þar mannfall mikið allt að borgarhliðinu. 41 Eftir það dvaldist Abímelek í Arúma en Sebúl rak Gaal og bræður hans burt svo að þeir gátu ekki búið í Síkem.