6 En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir sem bjuggu í Bet Milló og tóku þeir Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni við Síkem.
7 Þegar Jótam frétti þetta fór hann og stóð á tindi Garísímfjalls, hóf upp rödd sína, kallaði og mælti til þeirra: „Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri ykkur.
8 Einu sinni hugðust trén smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir okkur. 9 En olíutréð sagði við þau: Á ég að láta eftir olíu mína sem Guð og menn virða mig fyrir og fara að sveima uppi yfir trjánum?
10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: Komdu og vertu konungur yfir okkur. 11 En fíkjutréð svaraði þeim: Á ég þá að láta eftir sætu mína og ávextina gómsætu og fara að sveima uppi yfir trjánum?
12 Þá sögðu trén við vínviðinn: Komdu og vertu konungur yfir okkur.
13 En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að láta eftir vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum?
14 Þá sögðu öll trén við þyrninn: Komdu og vertu konungur yfir okkur. 15 En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara ykkar að smyrja mig til konungs, komið þá og fáið ykkur skjól í skugga mínum. En sé ekki svo þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon.
16 Ef þið hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, ef þið hafið gert vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þið hafið breytt við hann eins og hann hafði til unnið – 17 því að faðir minn barðist fyrir ykkur og stofnaði lífi sínu í hættu og ykkur frelsaði hann úr höndum Midíans 18 en þið hafið í dag risið upp gegn húsi föður míns og drepið syni hans, sjötíu að tölu, á einum steini og tekið Abímelek, son ambáttar hans, til konungs yfir Síkembúa af því að hann er bróðir ykkar – 19 og ef þið hafið þá sýnt Jerúbbaal og ætt hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek og gleðjist hann þá líka yfir ykkur.
20 En ef svo er ekki, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim sem búa í Bet Milló og eldur gangi út frá Síkembúum og þeim sem búa í Bet Milló og eyði Abímelek.“ 21 Síðan lagði Jótam á flótta og fór til Beer. Þar dvaldist hann vegna Abímeleks, bróður síns.