1 Efraímítar sögðu við Gídeon: „Hví gerðir þú okkur það að kalla okkur ekki til hjálpar? Þú hefur farið einn til þess að berjast við Midíaníta.“ Og þeir átöldu hann harðlega. 2 Þá sagði hann við þá: „Hvað hef ég nú gert í samanburði við ykkur? Er ekki eftirtíningur Efraíms betri en vínuppskera Abíesers? 3 Guð gefi höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb, í ykkar hendur. Hvað hef ég megnað að gera í samanburði við ykkur?“ Þegar hann hafði sagt þetta rann þeim reiðin.
Herför Gídeons austan Jórdanar
4 Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna sem með honum voru. Þeir voru þreyttir en ráku þó enn flóttann. 5 Hann sagði við íbúa Súkkót: „Gefið liðinu, sem fylgir mér, brauðhleifa því að mennirnir eru orðnir þreyttir en ég er að elta þá Seba og Salmúnna, konunga í Midían.“ 6 En höfðingjarnir í Súkkót sögðu: „Eru þeir Seba og Salmúnna orðnir þér svo fastir í hendi að við getum gefið her þínum brauð?“ 7 Þá sagði Gídeon: „Fyrst svona er þá skal ég þreskja hold ykkar með þyrnum eyðimerkurinnar og með þistlum þegar Drottinn gefur Seba og Salmúnna í mínar hendur.“ 8 Þaðan fór hann til Penúel og mælti við íbúana á sömu leið. En Penúelbúar svöruðu honum hinu sama og íbúar Súkkót höfðu svarað. 9 Þá sagði hann við Penúelbúa: „Þegar ég kem aftur heilu og höldnu mun ég brjóta niður þennan turn.“
10 Þeir Seba og Salmúnna voru í Karkór og herlið þeirra var um fimmtán þúsundir manna, allir þeir sem eftir voru af öllum her austurbyggja en hundrað og tuttugu þúsund vopnaðir menn voru fallnir. 11 Fór Gídeon nú tjaldbúaleiðina fyrir austan Nóba og Jogbeha og réðst á herbúðirnar en herinn uggði ekki að sér. 12 Þeir Seba og Salmúnna flýðu en hann elti þá, tók báða Midíanskonungana Seba og Salmúnna höndum og tvístraði öllum hernum.
13 Á leið sinni til baka úr orrustunni við Heresbrekku tók Gídeon Jóasson 14 svein nokkurn af Súkkótbúum höndum og knúði hann sagna. Sveinninn skrifaði upp fyrir hann höfðingjana í Súkkót og öldungana, alls sjötíu og sjö manns. 15 Þegar hann kom til íbúa Súkkót sagði hann: „Hér eru nú þeir Seba og Salmúnna sem þið hædduð mig fyrir og sögðuð: Eru þeir Seba og Salmúnna orðnir þér svo fastir í hendi að við getum gefið þreyttum mönnum þínum brauð?“ 16 Hann tók öldunga borgarinnar og þyrna eyðimerkurinnar og þistla og lét íbúa Súkkót kenna á þeim. 17 Og hann braut niður turninn í Penúel og drap borgarbúa.
18 Síðan sagði hann við Seba og Salmúnna: „Hvernig voru þeir menn í hátt sem þið drápuð hjá Tabor?“ Þeir sögðu: „Þeir voru alveg eins og þú. Þeir voru allir sem konungssynir ásýndum.“ 19 Þá sagði hann: „Þeir hafa verið bræður mínir, synir móður minnar. Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Ef þið hefðuð gefið þeim líf mundi ég ekki drepa ykkur.“ 20 Því næst sagði hann við Jeter, frumgetinn son sinn: „Farðu og dreptu þá.“ En sveinninn brá ekki sverði sínu því að hann skorti kjark til þess enda var hann ungur að aldri. 21 En þeir Seba og Salmúnna sögðu: „Komdu sjálfur og gakktu frá okkur því að afl fer eftir aldri manns.“ Fór þá Gídeon og drap Seba og Salmúnna og tók skrautmánana sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.