Ágætu félagsmenn

Nú höfum við sent út reikning vegna árgjaldsins og við vonum svo sannarlega að þið bregðist vel við því félagið okkar, þetta elsta starfandi félag landsins, hefur staðið í framkvæmdum og stefnir á enn frekari stórræði á komandi ári.

Á þessu ári réðumst við í að gera Biblíuna aðgengilega á appi og hafa nú þegar vel á þriðja þúsund manns hlaðið því niður og við sjáum að notkun fer stöðugt vaxandi – en appið er hægt að nálgast á heimasíðunni okkar www.biblian.is  Ýmsir skemmtilegir möguleikar eru til staðar þegar appið er notað og það sjáum við daglega, t.d. á samfélagsmiðlum.

En það er sóknarhugur í okkur og við ætlum okkur stærri hluti. Á næsta ári munum við standa að því að koma Nýja testamentinu á hljóðrænt form í samstarfi við Gídeonfélagið á Íslandi og með þaulvönu fólki frá Faith Comes by Hearing frá Bandaríkjunum en það er samfélag sem sérhæfir sig í að hljóðrita hina helgu bók – þau munu koma hingað og verkið verður unnið hér heima. Þegar þetta verkefni verður í höfn verður hægt að hlusta á Nýja testmenntið á nánast öllum nútímamiðlum – og af geisladiski. Síðar mun Biblían öll verða aðgengileg með þessu móti.

Hið íslenska Biblíufélag er ekki bara í sókn, heldur stórsókn! Við heitum á ykkur góðir félagar að leggjast á árar með okkur – Biblían er bókin okkar og við viljum koma henni til sem flestra. Vaxandi notkun nýrra miðla ætlum við að mæta með glæsibrag.

Að sjálfsögðu geta allir velunnarar okkar verið með – og ekki er verra að það góða fólk og fyrirtæki gangi formlega til liðs við okkur og gerist félagar. En það er auðvelt í gegnum hnapp á heimasíðu okkar!

Vertu með! 😊

 

Kær kveðja og Guðs blessun,

Guðmundur Brynjólfsson

framkvæmdastjóri HÍB