25 Þessa sömu nótt sagði Drottinn við hann: „Taktu uxa föður þíns og annan uxa, sjö vetra. Brjóttu Baalsaltari föður þíns og felldu Aséruna hjá því. 26 Reistu svo Drottni, Guði þínum, vandað altari efst uppi á þessu virki, taktu annan uxann og berðu fram brennifórn ásamt viðnum úr Asérunni sem þú felldir.“ 27 Þá tók Gídeon tíu af mönnum sínum og gerði eins og Drottinn hafði sagt honum. En hann óttaðist að geta ekki gert þetta í dagsbirtu fyrir ættmennum sínum og borgarbúum og gerði það því í skjóli nætur.
28 Þegar borgarbúar fóru á fætur árla næsta morgun var Baalsaltarið brotið, Aséran, sem hjá því var, höggvin niður og öðrum uxanum hafði verið fórnað á nýreistu altari. 29 Þá sögðu þeir hver við annan: „Hver hefur gert þetta?“ Og þeir könnuðu það og leituðu og sögðu: „Þetta hefur Gídeon Jóasson gert.“ 30 Þá sögðu borgarmenn við Jóas: „Framseldu son þinn. Hann skal deyja því að hann hefur brotið Baalsaltarið og fellt Aséruna sem var hjá því.“ 31 En Jóas sagði við alla þá sem hjá honum stóðu: „Ætlið þið að tala máli Baals? Ætlið þið að hjálpa honum? Hver sá sem tekur svari hans skal lífi týna áður en dagur rennur. Ef hann er Guð skal hann sjálfur sækja mál sitt fyrst altari hans hefur verið brotið.“ 32 Eftir þetta var Gídeon nefndur Jerúbbaal. Menn sögðu: „Baal fari með mál á hendur honum,“ af því að hann braut altari hans.
33 Nú höfðu allir Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar safnast saman. Þeir fóru yfir Jórdan og settu upp herbúðir sínar á Jesreelsléttu. 34 En andi Drottins kom yfir Gídeon. Hann þeytti lúðurinn og niðjar Abíesers söfnuðust saman til fylgdar við hann. 35 Hann sendi einnig sendiboða út um allan Manasse og menn söfnuðust til fylgdar við hann. Enn fremur sendi hann sendiboða til Assers, Sebúlons og Naftalí. Þeir fóru og til fylgdar við hann.
36 Þá sagði Gídeon við Guð: „Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mitt tilstilli eins og þú hefur sagt, 37 þá legg ég þetta ullarreyfi út á þreskivöllinn. Verði dögg á reyfinu einu meðan jörðin er alþurr þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mitt tilstilli eins og þú hefur sagt.“ 38 Það varð svo. Morguninn eftir fór hann snemma út og vatt reyfið og kom úr því full skál af dögg. 39 En Gídeon sagði við Guð: „Láttu ekki reiði þína upptendrast gegn mér þótt ég tali enn einu sinni. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gera tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt vera þurrt en jörðin öll vot af dögg.“ 40 Og Guð gerði svo á þeirri nóttu. Reyfið eitt var þurrt en jörðin öll döggvot.