„Ég er 77 ára og þetta er í fyrsta skiptið sem ég eignast Biblíuna á mínu eigin tungumáli — það er góð tilfinning!“

Javanska er töluð af 75.000 manns í Súrinam, sem telst vera um 15% landsmanna. Afkomendur verkamanna á plantekrum og í verksmiðjum komu til hollensku nýlendunnar Súrinam frá Indónesíu fyrir röskum 100 árum. Því miður er javanskan sem töluð er í Súrinam afar frábrugðin þeirri sem töluð er í Suðaustur-Asíu og margt eldra fólk berst við að ná hollenskunni, sem þarna er þjóðtungan.

Ástæða til fagnaðar

Þetta er ástæða þess að útgáfu Biblíunnar í heild á súrinamskri javönsku var svo innilega fagnað — og ennfremur á táknrænum degi fyrir javönsku þjóðina — þegar 128 ár voru liðin síðan javanskt fólk kom fyrst til Súrinams frá Indónesíu.

Um það bil 800 manns söfnuðust saman í útgáfuhófi þann 10. ágúst árið 2018 í javönsku menningarmiðstöðinni í Paramaribo. Rosemay (sem myndin er af efst á blaðsíðunni) var ein þeirra ásamt mörgum öðrum sem eru hæstánægð með að hafa loksins fengið eintak af Orði Guðs á sínu ástkæra ylhýra.

Að ná til ungra og aldraðra

Paiken Martoredjo fagnaði því einnig mjög að sjá útgáfu nýju Biblíunnar. Hún varð ekkja á unga aldri, en ól upp fimm börn á kristnu heimili og krafðist þess ætíð að þau læsu Biblíuna saman sem fjölskylda. Nú, þegar hún er orðin 84 ára að aldri, voru börnin hennar viðstödd útgáfuhófið og færðu henni eintak við heimkomuna, sem börnin hennar segja að hún lesi sí og æ.

„Ég hef hlakkað til þessa dags! Það er fyrir náð Guðs að ég lifi enn þann dag að geta haldið á þessari Biblíu og lesið í henni,“ sagði Paiken.

Einnig er vonast til þess að þessi nýja Biblía komi af stað nýrri flóðbylgju í móðurmálskennslu javönsku þjóðarinnar, þar sem fjöldi ungs fólks, bæði í Súrinam og Hollandi, talar hollensku.

„Ungt javanskt fólk — bæði í Súrinam og Hollandi, hefur ekki mikinn áhuga á að læra javanska tungumálið eða lesa það,“ sagði Andre Veux, sem fæddist í Súrinam en býr nú í Hollandi, en flaug heim sérstaklega fyrir útgáfuhófið. „Þar sem öll Biblían er til á súrinamskri javönsku mun það ljúka upp augum þeirra fyrir því að tungumál þeirra hefur vægi og vekja löngun þeirra til þess að lesa það og læra. Ég vona að þessi þýðing verði notuð til þess að kenna næstu kynslóð.“

Í útgáfuhófinu báru tvö ung börn Biblíuna inn sem tákn þess að hún nái til næstu kynslóðar og þau báru hana til safnaðarleiðtoganna sem báðu síðan fyrir henni.

Biðjum fyrir nýju súrinamsk-javönsku Biblíunni, að hún hjálpi bæði ungum og öldnum að tengjast Guði fyrir umbreytandi Orð Hans. Þökkum Guði fyrir teymið sem annaðist þýðingu og dreifingu á þessari Biblíu og biðjum þess að því megi takast að framleiða hljóðbókarútgáfu þessarar Biblíu á næstu árum.

 

 

_ _ _

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi á íslensku

Greinin er frá vinum okkar í Hinu skoska biblíufélagi.