Köllun Gídeons

11 Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra sem Jóas, niðji Abíesers, átti en Gídeon, sonur hans, var að þreskja hveiti í vínþröng til að fela það fyrir Midían. 12 Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: „Drottinn er með þér, hugrakki hermaður.“ 13 Þá sagði Gídeon við hann: „Ó, herra minn, sé Drottinn með okkur, hví hefur þá allt þetta yfir okkur gengið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans sem feður okkar hafa skýrt frá og sagt: Leiddi Drottinn okkur ekki út af Egyptalandi? En nú hefur Drottinn hafnað okkur og selt í hendur Midíans.“ 14 En Drottinn sneri sér að honum og sagði: „Farðu í styrkleika þínum og frelsaðu Ísrael úr höndum Midíans. Er það ekki ég sem sendi þig?“ 15 Gídeon svaraði honum: „Æ, Drottinn, hvernig ætti ég að frelsa Ísrael? Ætt mín er aumasta ættin í Manasse og ég smæstur í ætt minni.“ 16 Þá sagði Drottinn við hann: „Ég verð með þér og þú munt sigra Midíaníta alla sem einn.“ 17 Gídeon svaraði honum: „Hafi ég fundið náð í augum þínum, gefðu mér þá tákn um að það sért þú sem talar við mig. 18 Farðu ekki héðan fyrr en ég sný aftur til þín, kem hingað með fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig.“ Og Drottinn sagði: „Ég mun bíða hér þangað til þú kemur aftur.“
19 Þá fór Gídeon og matbjó hafurkið og ósýrðar kökur úr einni efu mjöls. Setti hann kjötið í körfu en soðið í krukku og kom með þetta út til hans undir eikina og bar það fram. 20 En engill Guðs sagði við hann: „Taktu kjötið og ósýrðu kökurnar, leggðu það hér á klettinn og helltu súpunni yfir.“ Hann gerði það. 21 Engill Drottins rétti þá út staf þann sem hann hafði í hendi og snerti kjötið og ósýrðu kökurnar með endanum. Kom þá eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og ósýrðu kökunum en engill Drottins hvarf sjónum hans. 22 Þá sá Gídeon að það hafði verið engill Drottins. Og Gídeon sagði: „Vei mér, Drottinn Guð. Ég hef séð engil Drottins augliti til auglitis.“
23 Og Drottinn sagði við hann: „Friður sé með þér. Óttastu ekki, þú munt ekki deyja.“ 24 Gídeon reisti Drottni þar altari og nefndi það: Drottinn er friður. Stendur það enn í dag í Ofra í landi niðja Abíesers.