Gídeon

1 Ísraelsmenn gerðu það sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár. 2 Og Midían varð Ísrael voldugri. Gerðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían. 3 Í hvert sinn sem Ísraelsmenn höfðu lokið við að sá komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og héldu gegn þeim. 4 Þeir settu upp herbúðir sínar gegnt Ísraelsmönnum, eyddu jarðargróða alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, hvorki sauði, naut né asna. 5 Þeir fóru þangað með kvikfénað sinn og tjöld. Kom slíkur aragrúi af þeim sem engisprettur væru. Varð engri tölu á þá né úlfalda þeirra komið og brutust þeir inn í landið til að eyða það. 6 Var Ísrael þá mjög þjakaður vegna Midíans og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins.
7 Þegar Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían 8 sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna sem sagði við þá: „Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi ykkur út af Egyptalandi og frelsaði ykkur úr þrælahúsinu 9 og ég frelsaði ykkur úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra sem kúguðu ykkur, ég hrakti þá undan ykkur og gaf ykkur land þeirra. 10 Og ég sagði við ykkur: Ég er Drottinn, Guð ykkar. Þið skuluð ekki óttast guði Amorítanna en land þeirra byggið þið nú. En þið hlýdduð ekki rödd minni.“