3. kafli

26 En Ehúð komst undan meðan þeir töfðust. Hann var kominn fram hjá steinstyttunum og sloppinn til Seíra. 27Þegar hann var þangað kominn lét hann þeyta lúður á Efraímsfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af hæðunum en hann fór fyrir þeim. 28 Og hann sagði við þá: „Fylgið mér því að Drottinn hefur gefið óvini ykkar, Móabítana, ykkur á vald.“ Fóru þeir þá niður á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir. 29 Þá felldu þeir um tíu þúsund Móabíta. Voru það allt sterkir menn og hraustir en enginn komst undan.
30 Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landinu í áttatíu ár.

Samgar

31 Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi sex hundruð manna af Filisteum með nautrekstrarstaf og frelsaði hann einnig Ísrael.

4. kafli

Debóra og Barak

1 Þegar Ehúð var dáinn gerðu Ísraelsmenn enn að nýju það sem illt var í augum Drottins. 2 Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, konungi í Kanaanslandi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím.
3 Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins því að Jabín átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár. 4 Kona hét Debóra. Hún var spámaður og eiginkona manns er hét Lapídót. Hún var dómari í Ísrael á þessum tíma. 5 Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímsfjöllum og Ísraelsmenn komu þangað upp til hennar og lögðu mál sín fyrir hana. 6 Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: „Hefur Drottinn, Guð Ísraels, ekki boðið svo: Farðu og haltu til Taborfjalls og hafðu með þér tíu þúsund menn af niðjum Naftalí og Sebúlons? 7 Og ég mun leiða til þín Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum sínum og herliði að Kísonlæk og ég mun gefa hann þér á vald.“ 8 Barak sagði við hana: „Ég fer ef þú ferð með mér en viljir þú ekki fara með mér mun ég hvergi fara.“ 9 Hún svaraði: „Víst mun ég fara með þér þótt þú munir enga sæmd hljóta af þessari för þinni því að Drottinn mun selja Sísera í hendur konu.“ Síðan fór Debóra af stað og hélt með Barak til Kedes. 10 Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, tíu þúsund menn fóru með honum og Debóra var honum samferða.