2. kafli

16 En Drottinn vakti upp dómara og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra sem rændu þá. 17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum en tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna sem hlýtt höfðu boðum Drottins og breyttu ekki eins og þeir.
18 Þegar Drottinn vakti upp dómara handa þeim, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi því að Drottinn kenndi í brjósti um þá er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum. 19 En þegar dómarinn andaðist breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu hvorki af þessum verkum sínum né þrjósku sinni.
20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: „Af því að þetta fólk hefur rofið sáttmálann, sem ég gerði við feður þess, og ekki hlýtt rödd minni 21 mun ég ekki framar stökkva burt undan því nokkrum manni af þeim þjóðum sem Jósúa skildi eftir er hann andaðist. 22 Ég vil nota þær til að reyna Ísraelsmenn, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gerðu, eða ekki.“ 23 Þess vegna lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær strax burt og hann gaf þær ekki á vald Jósúa.

3. kafli

1 Þessar þjóðir lét Drottinn vera kyrrar til þess að reyna Ísrael með þeim, alla þá er ekkert höfðu haft að segja af öllum bardögunum um Kanaan. 2 Þetta gerði hann einungis til þess að komandi kynslóðir Ísraelsmanna mættu kynnast hernaði, þær sem ekki höfðu kynnst honum fyrr. 3 Þetta eru þjóðirnar: Fimm höfðingjar Filistea, allir Kanverjar, Sídonbúar og Hevítar, sem bjuggu á Líbanonsfjöllum, frá fjallinu Baal Hermon allt þangað er leið liggur til Hamat. 4 Þeim var þyrmt til þess að reyna mætti Ísrael með þeim svo að ljóst yrði hvort þeir vildu hlýða boðum Drottins sem hann hafði gefið feðrum þeirra fyrir meðalgöngu Móse. 5 Þannig bjuggu Ísraelsmenn meðal Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 6 Þeir gengu að eiga dætur þeirra, giftu sonum þeirra dætur sínar og þjónuðu guðum þeirra.