Endurreisn Ísraels

21 Ég birti dýrð mína á meðal þjóðanna. Allar þjóðir skulu sjá hvernig ég fullnægi refsidómi mínum og sjá hönd mína sem ég legg á þá. 22 Frá þeim degi og um alla framtíð munu Ísraelsmenn skilja að ég er Drottinn, Guð þeirra. 23 Þjóðirnar munu skilja að Ísraelsmenn fóru í útlegð vegna sektar sinnar. Ég huldi auglit mitt fyrir þeim, af því að þeir sviku mig, og seldi þá í hendur fjandmanna þeirra svo að þeir féllu allir fyrir sverði. 24 Ég fór með þá eins og þeir áttu skilið vegna saurgunar sinnar og afbrota.
25 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Nú sný ég högum Jakobs og sýni öllum Ísraelsmönnum miskunn og ég er fullur af ákafri afbrýði vegna míns heilaga nafns. 26 Þeir verða að bera smán sína og öll sín svik við mig þegar þeir eru sestir að óhultir í landi sínu og enginn hrekur þá burt. 27 Þegar ég hef leitt þá frá framandi þjóðum og safnað þeim saman úr löndum fjandmanna þeirra mun ég birta heilagleika minn á þeim fyrir augum fjölmargra þjóða. 28 Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn, Guð þeirra því að eftir að ég hafði látið flytja þá til framandi þjóða í útlegð safnaði ég þeim saman aftur í þeirra eigin landi og skildi engan eftir. 29 Ég mun aldrei framar hylja auglit mitt fyrir þeim þegar ég hef úthellt anda mínum yfir Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð.