37. kafli

Sameining Ísraels og Júda

15 Orð Drottins kom til mín: 16 En þú, mannssonur, tak tréstaf og skrifa á hann: Júda og Ísraelsmenn, bandamenn hans. Taktu síðan annan tréstaf og skrifaðu á hann: Jósef og allir Ísraelsmenn, bandamenn hans. 17 Skeyttu þá síðan saman svo að þeir verði einn stafur í hendi þér. 18 En ef landar þínir segja við þig: „Viltu ekki skýra fyrir okkur hvað þetta á að þýða?“ 19 svaraðu þeim þá: Svo segir Drottinn Guð: Hér með tek ég staf Jósefs og ættbálka Ísraels og bandamanna hans, sem er í hendi Efraíms, og bæti staf Júda við hann. Ég geri þá að einum tréstaf svo að ég hafi aðeins einn staf í hendi mér. 20 Stafina, sem þú hefur skrifað á, skaltu hafa í hendi þér fyrir augum þeirra. 21 Segðu síðan við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna sem þeir fóru til og safna þeim úr öllum áttum og flyt þá til þeirra eigin lands. 22 Ég geri þá að einni þjóð í landinu, í fjalllendi Ísraels, og einn konungur skal vera konungur þeirra allra. Þeir skulu aldrei framar verða tvær þjóðir né heldur skiptast í tvö konungsríki. 23 Þeir munu aldrei framar saurga sig á skurðgoðum, andstyggilegum guðamyndum eða afbrotum sínum. Ég mun bjarga þeim frá fráhvarfi þeirra sem leiddi þá til syndar. Ég mun hreinsa þá og þeir verða minn lýður og ég verð Guð þeirra. 24 Davíð, þjónn minn, verður konungur yfir þeim og þeir munu allir hafa einn hirði. Þeir munu breyta eftir reglum mínum og halda lög mín og framfylgja þeim. 25 Þeir munu búa í landinu sem ég gaf Jakobi, þjóni mínum, og forfeður þeirra bjuggu í. Þar munu þeir ævinlega búa, börn þeirra og barnabörn, og Davíð, þjónn minn, verður höfðingi þeirra um allan aldur. 26 Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. 27Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. 28 Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

38. kafli

Spádómar gegn Góg

1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, snúðu þér gegn Góg í landinu Magóg, stórfursta í Mesek og Túbal. Flyt spámannlegan boðskap gegn honum 3 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Nú held ég gegn þér, Góg, stórfursti í Mesek og Túbal. 4 Ég sný þér við, kræki krókum í kjálka þér og leiði þig burt ásamt öllum þínum her, hestum og riddurum, öllum albrynjuðum. Ég leiði þetta mikla lið burt sem búið er stórum og smáum skjöldum og með brugðin sverð. 5 Menn frá Persíu, Kús og Pút eru með þeim, allir búnir skildi og hjálmi. 6 Gómer og allar hersveitir hans, einnig Bet Tógarma frá hinum fjarlægustu byggðum í norðri og allar hersveitir hans. Þér fylgja fjölmargar þjóðir. 7 Taktu vopn þín og vígbúðu þig og allan liðsafnað þinn og verið á verði fyrir mig.