Endurreisn Ísraels

16 Orð Drottins kom til mín: 17 Mannssonur, þegar Ísraelsmenn bjuggu í landi sínu saurguðu þeir það með breytni sinni og verkum. Breytni þeirra var í mínum augum eins og óhreinleiki konu sem hefur á klæðum. 18 Þá jós ég heift minni yfir þá vegna blóðsins sem þeir höfðu úthellt í landinu og af því að þeir höfðu saurgað það með skurðgoðum sínum. 19 Ég tvístraði þeim meðal annarra þjóða, þeim var dreift um löndin. Ég dæmdi þá eftir breytni þeirra og verkum. 20 Og hvar sem þeir komu til þjóðanna vanhelguðu þeir mitt heilaga nafn. Því að um þá var sagt: Þessir menn eru þjóð Drottins en samt urðu þeir að yfirgefa land hans. 21 Ég tók þetta nærri mér vegna míns heilaga nafns sem Ísraelsmenn höfðu vanhelgað meðal þjóðanna sem þeir komu til.
22 Segðu því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Það er ekki ykkar vegna að ég læt til mín taka, Ísraelsmenn, heldur vegna míns heilaga nafns sem þið hafið vanhelgað meðal þjóðanna sem þið eruð komnir til. 23 Ég mun helga mitt mikla nafn sem hefur verið vanhelgað á meðal þjóðanna því að þið hafið vanhelgað það á meðal þeirra. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn, segir Drottinn Guð, þegar ég birti heilagleika minn á ykkur fyrir augum þeirra. 24 Ég mun sækja ykkur frá öllum þjóðunum og safna ykkur saman úr öllum löndunum og flytja ykkur til ykkar eigin lands. 25 Ég mun dreypa á ykkur hreinu vatni svo að þið verðið hreinir. Ég mun hreinsa ykkur af öllum óhreinindum ykkar og skurðgoðum. 26 Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. 27 Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. 28 Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar. 29 Ég mun frelsa ykkur frá öllu því sem þið hafið saurgast af. Þá mun ég kalla á kornið og láta það spretta en ekki senda hungursneyð gegn ykkur. 30 Ég mun einnig auka ávöxt trjánna og afrakstur akranna svo að þið þurfið ekki framar að þola smánaryrði frá öðrum þjóðum vegna hungurs. 31 Þá munuð þið minnast ykkar illu breytni og vondu verka og ykkur mun bjóða við sjálfum ykkur vegna afbrota ykkar og illvirkja. 32 Það er ekki ykkar vegna að ég læt til mín taka, segir Drottinn Guð, það skuluð þið vita. Blygðist ykkar og verið sneyptir vegna breytni ykkar, Ísraelsmenn.
33 Svo segir Drottinn Guð: Daginn sem ég hreinsa ykkur af öllum afbrotum ykkar mun ég láta fólk setjast aftur að í borgunum og það sem lagt var í rúst verður endurreist. 34 Hið eydda land verður aftur ræktað í stað þess að liggja í auðn fyrir augum allra sem eiga leið hjá. 35 Þeir munu segja: Þetta land, sem var eytt, er orðið eins og garðurinn Eden, borgirnar, sem voru lagðar í rúst, eyddar mönnum og rifnar niður, eru nú víggirtar og byggðar. 36 Þá munu þjóðirnar, sem eftir eru umhverfis ykkur, skilja að ég, Drottinn, endurreisi það sem rifið hefur verið niður og gróðurset í það land sem hefur verið eytt. Ég, Drottinn, hef talað og ég geri það sem ég hef sagt.
37 Svo segir Drottinn Guð: Ég mun einnig leyfa Ísraelsmönnum að leita svara hjá mér um það að ég fjölgi fólkinu eins og hjörð. 38 Borgirnar, sem voru lagðar í rúst, skulu fyllast af hjörðum manna eins og Jerúsalem af fé á hátíðum, fé helguðu til fórna. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.