Harmljóð yfir krókódílnum faraó

1 Á fyrsta degi tólfta mánaðar tólfta ársins kom orð Drottins til mín:
2 Mannssonur, hef upp harmljóð um faraó, konung Egyptalands, og segðu við hann:
Þú líkist ljóni þjóðanna.
Þú varst eins og krókódíll í vötnum,
blést vatninu með nösum þínum,
gruggaðir það með fótum þínum
og æstir upp öldurnar.
3Svo segir Drottinn Guð:
Ég mun þenja net mitt yfir þig
með hjálp margra þjóða sem safnast hafa saman.
Þær munu draga þig upp í neti mínu.
4Síðan kasta ég þér upp á þurrt land,
fleygi þér út á bersvæði,
læt alla fugla himinsins setjast að á þér,
og seð öll dýr merkurinnar með þér.
5Ég mun láta kjöt þitt á fjöllin
og fylla dalina hræi þínu.
6Ég brynni jörðinni með því sem úr þér streymir
og fylli farvegina í fjöllunum blóði þínu.
7Ég mun byrgja himininn
þegar líf þitt fjarar út.
Ég mun myrkva stjörnurnar,
hylja sólina skýjum
og tunglið mun ekki bera birtu.
8Allan ljóma himinljósanna
myrkva ég vegna þín
og sendi myrkur yfir land þitt,
segir Drottinn Guð.

9 Ég mun valda ókyrrð meðal margra þjóða þegar ég tilkynni fall þitt í löndum sem þú þekkir ekki. 10 Ég mun skelfa margar þjóðir þín vegna og hárin munu rísa á höfðum konunga þeirra þegar ég reiði sverð mitt gegn þeim. Þeir munu allir sem einn titra og skjálfa og óttast um líf sitt daginn sem þú fellur. 11 Því að svo segir Drottinn Guð: Sverð konungsins í Babýlon mun koma gegn þér.
12Ég mun fella mannmergð þína
með sverði hermannanna
sem allir eru frá grimmustu þjóðum.
Þeir munu eyða stolti Egypta
og allri dýrð þeirra verður tortímt.
13Ég mun eyða öllu kvikfé þeirra
við hin miklu vötn
og hvorki mun mannsfótur grugga þau framar
né klaufir nokkurrar skepnu.
14Þá læt ég gruggið í vötnum þeirra setjast
og læt fljót þeirra streyma sem olíu,
segir Drottinn Guð.
15Þegar ég geri Egyptaland að eyðimörk
og það verður svipt gnægtum sínum,
þegar ég felli alla sem þar búa,
munu þeir skilja að ég er Drottinn.

16 Þetta er harmljóð og skal flutt sem harmljóð. Dætur þjóðanna skulu syngja það sem harmljóð, þær skulu syngja það um Egyptaland og alla dýrð þess, segir Drottinn Guð.