10 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Þar sem hann varð hávaxinn og teygði krónu sína upp á milli skýjanna gerðist hann hrokafullur vegna hæðar sinnar. 11 Því seldi ég hann hinum voldugasta leiðtoga þjóðanna í hendur. Hann fór með hann eins og hann átti skilið fyrir guðleysi sitt og ég hafnaði honum. 12 Framandi menn úr hópi grimmustu þjóða hjuggu hann niður og fleygðu honum í burt. Lim hans féll á fjöllin og alla dali og greinar hans brotnuðu í öllum gljúfrum landsins. Allar þjóðir heims flýðu úr skugga hans og létu hann eiga sig. 13 Allir fuglar himinsins bjuggu um sig á föllnum stofninum og öll dýr merkurinnar komu sér fyrir í limi hans. 14 Þess vegna skulu engin tré við vatnið verða hávaxin framar og teygja krónur sínar upp á milli skýjanna. Engin tré, sem drekka vatn, skulu ná hæð þeirra[ því að þau verða öll ofurseld dauðanum. Þau munu fara niður til undirheimanna, til þeirra manna sem grafnir hafa verið.
15 Svo segir Drottinn Guð: Daginn sem sedrusviðurinn fór niður til ríkis hinna dauðu lét ég frumdjúpið harma hann og hylja. Ég hélt aftur af kvíslum þess og hinum miklu vötnum var haldið í skefjum. Vegna hans klæddi ég Líbanon í sorgarbúning og öll trén á sléttlendinu visnuðu. 16 Ég lét þjóðirnar nötra við dynkinn af falli hans þegar ég sendi hann til ríkis hinna dauðu ásamt þeim sem fara niður í gryfjuna. En í undirheimum létu öll Edenstré huggast, ágætustu tré Líbanons, öll trén sem drekka vatn. 17 Þau fóru ásamt sedrusviðnum til undirheima, til þeirra sem féllu fyrir sverði, ásamt niðjum sínum, og bjuggu áður meðal þjóðanna í skugga hans.
18 Hvaða Edenstré varð jafnað við þig að stærð og glæsileika? Þér verður steypt ásamt Edenstrjánum til undirheima. Þú munt liggja innan um óumskorna og vopnbitna.
Þannig fer fyrir faraó og allri hans dýrð, segir Drottinn Guð.