30. kafli

20 Á sjöunda degi fyrsta mánaðar ellefta ársins kom orð Drottins til mín: 21 Mannssonur, ég hef brotið handlegg[faraós, konungs í Egyptalandi. Hvorki verður bundið um hann né hann vafinn umbúðum til að græða hann og styrkja svo að hann geti aftur gripið til sverðsins. 22 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Nú held ég gegn faraó, konungi Egyptalands: Ég mun brjóta báða handleggi hans, bæði þann heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans. 23 Ég mun tvístra Egyptum á meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin. 24 Ég mun styrkja handleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd. En handleggi faraós mun ég brjóta og hann mun stynja frammi fyrir konungi Babýlonar eins og helsærðir menn. 25 Ég mun styrkja handleggi konungsins í Babýlon en handleggir faraós munu hanga máttvana. Þegar ég fæ konunginum í Babýlon sverð mitt í hendur, og hann reiðir það gegn Egyptalandi, munu þeir skilja að ég er Drottinn. 26 Ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.

31. kafli

Lífstréð og faraó

1 Á fyrsta degi þriðja mánaðar í ellefta árinu kom orð Drottins til mín: 2 Mannssonur, segðu við faraó, konung Egyptalands, og fylgdarlið hans:
Hverjum líkist þú í veldi þínu?
3Mikill meiður, sedrusviður, óx á Líbanon.
Fagrar greinar gerðu skóginn skuggsælan,
stofninn óx hátt og króna hans
gnæfði hátt meðal skýjanna.
4Vatnið jók vöxt hans,
frumdjúpið hæð hans.
Það lét ár sínar flæða
umhverfis gróðurreit hans
og veitti lækjum sínum til allra trjáa á sléttlendinu.
5Hann varð því hærri vexti
en öll trén á sléttunni.
Greinunum fjölgaði,
limið breiddi úr sér
af öllu vatninu
sem rann til hans.
6Í greinum hans gerðu allir fuglar himins sér hreiður
og undir liminu
ólu öll dýr merkurinnar afkvæmi
og allar stórþjóðir bjuggu í skugga þess.
7Sedrusviðurinn varð mikilfenglegur og fagur
vegna hinna löngu greina
því að rót hans
náði til mikilla vatna.
8Enginn sedrusviður líktist honum
í garði Guðs,
kýprustréð hafði ekki jafn miklar greinar
og lim platanviðarins líktist ekki limi hans.
Ekkert tré í garði Guðs
var jafn fagurt og hann.
9Ég gerði hann fagran
með sínu mikla limi.
Öll Edenstré í garði Guðs
hlutu að öfunda hann.