[Mynd: frá vinstri: Valdis Teraudkalns (Lettland), ónefndur fararstjóri, Anders Blaberg (Svíþjóð), Birgitte Stocklund Larsen (Danmörk), Vilhelmina Kalinauskiene (Litháen), Guðmundur Brynjólfsson (Ísland), Ingeborg Mongstad-Kvammen (Noregur), Markku Kotila (Finnland), Gunnar K. Nattestad (Færeyjar), Jan Bärenson (Eistland)].   

 

Á dögunum hittust framkvæmdastjórar allra biblíufélaga á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjanna á þriggja á fundi í Tallinn í Eistalandi. Þetta er árlegur fundur og skiptast félögin í löndunum á að halda hann. Á næsta ári verður fundað í Svíþjóð.

Verkefni fundarins er hefðbundið að mestu en þar greina fulltrúarnir frá því hvað er helst á döfinni hjá hverju félagi fyrir sig. Stundum skarast verkefnin því félögin eiga þá í samstarfi. Gott dæmi um slíkt er að nú standa Svíar, Danir og Norðmenn fyrir því að gefa út Biblíu á samísku – en hún mun líta dagsins ljós á næsta ári. En Samar hafa aðeins einu sinni áður fengið biblíuþýðingu í hendur.

Lettar vinna að því um þessar mundir að gefa út nýja Biblíu og standa yfir tuttugu kirkjudeildir að því verkefni með félaginu þar en áætluð útkoma er árið 2021. Þá eru Lettar að gera félag sitt meira gildandi á samfélagsmiðlum.

Norðmenn vinna að stafrænum verkefnum og eins horfa þeir til aðferða til þess að auka fjárhagslega innkomu félagsins. Þar hafa þeir jafnvel í huga bókaútgáfu, söluvænna kristilegra bókmennta. Einnig kom fram á fundinum að Ingeborg Mongstad-Kvammen mun láta af störfum sem framkvæmdstjóri undir lok þessa árs og óskum við henni Guðs blessunar því hún hefur svo sannarlega reynst okkar félagi afar vel.

Danir hafa verið að koma sér upp nýrri heimasíðu og eins hafa þeir verið að huga að útgáfumálum – og þá helst léttlestrarútgáfu á Gamlatestamentinu.

Færeyingar huga að útgáfu af nýrri barnabiblíu og eins hefur félagið þar áhuga á að skoða Gamlatestamentisútgáfu Dana og gera sambærilega færeyska útgáfu en Færeyingar gáfu einmitt út Nýja testamentið með þessum hætti á síðasta ári.

Litháar ætla sér að gefa út táknmálsútgáfu af Biblíunni og eins eru hefðbundin útgáfumál á döfinni hjá þeim; t.d. barnabiblía. Þá eru stafrænar hugmyndir einnig á lofti hjá þeim.

Finnar hafa nú fengið útgáfuréttinn af Biblíunni á Finnsku en hann var í höndum Finnsku kirkjunnar. Finnar huga nú mjög að tæknimálum og stafrænum möguleikum. Þeir hafa nú mjög gott biblíuapp.

Svíar huga að því að gera léttlestar Biblíu sérstaklega handa innflytjendum. Þá hafa Svíar gegnið í hús og selt Biblíuna, svæðisbundið. Það hefur gefist vel og er þeim yfirleitt vel tekið.

Eistar hafa lagt áherslu á samkirkjulegt starf. Þeir stefna að táknmálsbiblíu og þá hafa þeir á prjónunum að gera lestrarskrá fyrir hvern dag – en ekki útfærði fulltrúi þeirra það nánar.

Fundurinn tengdi sig einnig netfundi hjá UBS (United Bible Societies). Þá var fjallað um ganginn í alþjóðamálunum en öll félögin eru innan UBS og taka því þátt í starfi um víða veröld.

Þátttakendur tóku og þátt í maraþon biblíulestri en svo skemmtilega vildi til að á sama tíma og fundurinn var haldin fór fram í Olevistekirkjunni (kirkja heilags Ólafs) slíkur lestur. Hann fór þannig fram að hver sem er gat komið inn og tekið þátt, einfaldlega lesið næsta kafla. Það kom í hlut okkar að lesa, hver á sínu tungumáli, síðustu kafla Síðari konungabókar og las undirritaður þann 25. og síðasta.

Fundurinn fór fram á gistiheimili sem tengt er Birgittuklaustri og fengum við að fara til bæna með systrunum og eins var okkur kynnt reglan.

Þá var að mögnuðu minnismerki um þá borgara sem Sovétið drap í Eistlandi. Það var áhrifarík upplifun. En þetta minnismerki, eða öllu heldur minnisgarður með miklum minnismerkjum, var í göngufæri frá klaustrinu.

Það er afskaplega gagnlegt og gefandi að taka þátt í fundi sem þessum, hugmyndir kvikna og lærdómsferilið heldur áfram hjá undirrituðum. Það er styrkur fyrir Biblíuna, orð Guðs, að fólk í Biblíufélögunum komi saman og ræði strauma og stefnur. Biblíufélögin eru missterk en þá er að efla og þau og þá er gott að minnast þess sem stendur á góðum stað:

Ljúkið nú við það og sýnið viljann í verki og gefið það sem efnin leyfa. Því að ef viljinn er góður þá er hver metinn eftir því sem hann á og ekki eftir því sem hann á ekki til. (2 Kor 8:11-12)

 

Kær kveðja og Guðs góða blessun,

Guðmundur Brynjólfsson,

framkvæmdastjóri HÍB