28. kafli

Gegn Sídon

20 Orð Drottins kom til mín: 21 Mannssonur, snúðu þér að Sídon, spáðu gegn henni 22 og segðu: Svo segir Drottinn Guð:
Nú held ég gegn þér, Sídon:
Ég ætla að birta dýrð mína innan múra þinna,
íbúar þínir munu skilja að ég er Drottinn
þegar ég fullnægi refsidómnum yfir borginni
og birti heilagleika minn í henni.
23 Ég sendi drepsótt gegn henni
og blóð á stræti hennar.
Vegnir falla í borginni
fyrir sverði sem sækir hvarvetna að.
Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.

Ísrael gefið fyrirheit

24 Ísraelsmenn skulu ekki framar nístir þyrnum eða stungnir þistlum nágrannaþjóðanna sem hæðast að þeim. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn Guð.
25 Svo segir Drottinn Guð: Þegar ég safna Ísraelsmönnum saman frá þjóðunum sem þeim var dreift á meðal mun ég birta heilagleika minn vegna þeirra í augsýn þjóðanna. Þeir skulu búa í landi sínu sem ég gaf Jakobi, þjóni mínum. 26 Þar munu þeir búa óhultir, byggja hús og gróðursetja víngarða. Þeir munu vera óhultir þegar ég fullnægi refsidómum á öllum nágrönnum þeirra sem hafa fyrirlitið þá. Þeir munu skilja að ég er Drottinn, Guð þeirra.

29. kafli

Gegn faraó

1 Á tólfta degi tíunda mánaðar á tíunda árinu kom orð Drottins til mín: 2 Mannssonur, snúðu þér að faraó, konungi Egyptalands, og spáðu gegn honum og öllu Egyptalandi. 3 Segðu: Svo segir Drottinn Guð:
Nú held ég gegn þér, faraó,
konungur Egyptalands,
þú mikli krókódíll
sem liggur milli kvísla Nílar
og segir: „Ég á kvíslar Nílar
og bjó þær til.“
4Ég set króka í kjálka þína,
læt fiskana í fljótinu loða við hreistrið á þér,
dreg þig upp úr fljótskvíslum þínum
ásamt öllum fiskunum í Níl
sem loða við hreistur þitt.
5Síðan varpa ég þér út í eyðimörkina
ásamt öllum fiskunum úr kvíslum þínum.
Þú munt liggja úti á víðavangi
og verður hvorki tekinn upp né grafinn.
Ég mun gefa þig dýrum merkurinnar og fuglum himinsins að æti
6og allir íbúar Egyptalands
munu skilja að ég er Drottinn.
Þú reyndist Ísraelsmönnum reyrstafur.
7Þegar þeir gripu um þig hrökkst þú í sundur
og fleiðraðir alla hönd þeirra
og þegar þeir studdust við þig brotnaðir þú
og þeir kiknuðu allir í mjöðmum.
8Þess vegna segir Drottinn Guð:
Ég sendi sverð gegn þér
og tortími mönnum og skepnum.
9Egyptaland skal verða eyðimörk og rústahaugur.
Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.
Þú hefur sagt: „Ég á Níl,
ég bjó fljótið til.“