Gegn höfðingja Týrusar

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, segðu þetta við höfðingja Týrusar: Svo segir Drottinn Guð: Hjarta þitt varð svo hrokafullt að þú sagðir: „Ég er Guð. Ég bý í bústað guða í miðju hafi.“ En þú ert maður en ekki guð þótt þú héldir að þú líktist guði.
3Víst ertu vitrari en Daníel,
enginn leyndardómur er þér hulinn.
4Þú aflaðir auðs með visku og skilningi,
dróst saman gull og silfur í fjárhirslu þína.
5Með mikilli þekkingu og verslun
jókstu auðæfi þín
og hjarta þitt varð þóttafullt vegna auðs þíns.
6Þess vegna segir Drottinn Guð svo:
Þar sem þú heldur í hjarta þínu að þú sért Guði líkur
7sendi ég framandi þjóðir gegn þér,
grimmar þjóðir.
Þær draga sverð úr slíðrum
gegn þinni fögru visku,
vanhelga ljóma þinn.
8Þeir senda þig niður í gryfjuna
og þú hlýtur dauða hins vopnbitna úti á rúmsjó.
9Ætlar þú enn að segja: „Ég er guð,“
frammi fyrir þeim sem svipta þig lífi?
Þú ert maður, ekki guð,
í höndum þeirra sem vega þig.
10Þú hlýtur dauða óumskorinna
fyrir hendi framandi manna.
Ég hef talað, segir Drottinn Guð.

Harmljóð um konunginn í Týrus

11 Orð Drottins kom til mín:
12 Mannssonur, flyttu harmljóð um konunginn í Týrus og segðu við hann: Svo segir Drottinn Guð:
Þú varst fullkomleikinn sjálfur,
fullur visku og fullkominn að fegurð.
13Þú varst í Eden, garði Guðs,
þakinn alls kyns dýrum steinum:
rúbín, tópas og jaspis,
krýsolít, karneol og ónyx,
lapís, granat og smaragð,
og skart úr gulli, hamrað og grafið,
var eign þín,
sett á þig daginn sem þú varst skapaður.
14Ég gerði þig verndarkerúb,
þú varst á heilögu fjalli guðanna,
gekkst innan um glóandi steina.
15Breytni þín var flekklaus
frá sköpunardegi þínum
þar til misgjörð fannst hjá þér.
16Vegna verslunarumsvifa þinna
fylltist þú ofríki
svo að þú syndgaðir.
Þá rak ég þig,
hinn verndandi kerúb,
og rak þig af guðafjalli,
burt frá hinum glóandi steinum.
17En fegurð þín fyllti þig hroka
og þú spilltir visku þinni
vegna ljóma þíns.
Ég fleygði þér til jarðar,
fyrir fætur konunga,
svo að þeir gætu notið þess að horfa á þig.
18Þú vanhelgaðir helgidóma þína
með þinni miklu sekt
og óheiðarlegum viðskiptum.
Ég lét því eld brjótast út í þér
sem eyddi þér.
Ég gerði þig að ösku á jörðinni
fyrir augum allra sem horfðu á þig.
19Allar þjóðir, sem þekktu þig,
hryllti við þér.
Endalok þín skelfa,
þú ert með öllu horfinn.