12 Tarsis verslaði í umboði þínu vegna auðs þíns. Tarsismenn seldu vörur þínar fyrir silfur, járn, tin og blý. 13Javan, Túbal og Mesek versluðu í umboði þínu. Þeir létu þræla og eir fyrir vörur þínar. 14 Frá Bet Tógarma voru þér fengnir dráttarhestar, gæðingar og múldýr fyrir vörur þínar. 15 Ródosbúar versluðu í umboði þínu. Margir á fjarlægum eyjum voru kaupmenn í þjónustu þinni og guldu þér í fílabeini og íbenviði. 16 Edóm verslaði í umboði þínu vegna fjölbreyttrar framleiðslu þinnar. Edómítar seldu vörur þínar fyrir granatsteina, rauðan purpura, glitvefnað, býssuslín, kóralla og rúbína. 17 Júda og Ísrael voru kaupmenn þínir og seldu hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fyrir varning þinn. 18 Damaskus verslaði í umboði þínu með fjölbreytta framleiðslu þína vegna auðs þíns. Menn þaðan seldu vörur þínar fyrir vín frá Helbón og ull frá Sahar. 19 Frá Úsal fékkstu smíðajárn, kanel og reyr fyrir vörur þínar. 20 Dedan átti viðskipti við þig með söðuláklæði. 21 Arabía og allir höfðingjarnir frá Kedar versluðu í umboði þínu og greiddu þér með lömbum, hrútum og geitum. 22 Menn frá Saba og Raema voru kaupmenn þínir og létu úrvalssmyrsl, eðalsteina og gull fyrir vörur þínar. 23 Haran, Kanne og Eden og kaupmennirnir frá Saba, Assýríu og allri Medíu versluðu við þig. 24 Þeir versluðu fyrir þig með skrautklæði, bláar purpurakápur, glitvefnað og þétt fléttuð reipi. 25 Tarsisskip voru úlfaldalestir þínar og fluttu vörur þínar.
Þú varst fullfermd og mjög glæsileg
úti á rúmsjó.
26 Ræðarar þínir komu þér
út á reginhaf,
austanstormurinn braut þig í spón
úti á rúmsjó.

27 Auður þinn, verslunarvörur og annar varningur, hásetar þínir og stýrimenn, smiðirnir sem gerðu við glufurnar og þeir sem versluðu með vörur þínar, allir hermennirnir sem þú fluttir, allur mannfjöldinn um borð, sökk í djúp hafsins daginn sem þú fórst.
28 Við neyðaróp sjómanna þinna
skjálfa strendurnar.
29 Allir sem knýja árar
flýja skip sitt,
stýrimenn, allir hásetar á hafinu
ganga á land.
30 Þeir hefja upp rödd sína
og gráta beisklega,
ausa mold á höfuð sér,
velta sér á jörðinni.
31 Þeir raka á sig skalla vegna þín
og gyrðast hærusekk,
gráta beisklega yfir þér
í sárri sorg.
32 Í sorg sinni hefja þeir upp harmljóð um þig,
flytja sorgaróð vegna þín:
„Hver er sem Týrus
úti á reginhafi?“
33 Þegar varningur þinn kom af hafi
mettaðir þú margar þjóðir.
Þú auðgaðir konunga jarðarinnar
með auði þínum og verslunarvörum.
34 Nú liggur þú brotin í spón í sjónum,
í djúpi hafsins.
Varningur þinn og allur mannafli þinn
sökk með þér.
35 Allir sem búa á ströndunum
skelfast yfir þér,
hárin rísa á höfði konunganna,
andlit þeirra eru afskræmd.
36 Umboðsmenn þínir meðal þjóðanna
hnussa við þér. [
Endalok þín skelfa,
þú ert með öllu horfin.