Skipið Týrus ferst

1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, flyttu harmljóð um Týrus. 3 Segðu þetta við Týrus, sem liggur við Ægisdyr, við kaupkonuna sem verslar við framandi þjóðir á fjarlægum eyjum:
Svo segir Drottinn Guð:
Týrus, þú sagðir:
„Fegurð mín er fullkomin.“
4Land þitt er úti í miðju hafi, [
þeir sem reistu þig
fullkomnuðu fegurð þína.
5Úr kýprusviði frá Senírfjöllum
voru þiljur þínar gerðar á bæði borð,
sedrusviður, sóttur frá Líbanon,
var hafður í sigluna.
6Úr hæstu eikum Basans
voru árar gerðar,
þilfarið gert úr fílabeini og kýprusviði
frá eyjum Kitta.
7Seglið var glitofið lín frá Egyptalandi,
það var auðkenni þitt,
sóltjöld þín úr bláum purpura og rauðum
frá ströndum Elísa.
8Höfðingjar frá Sídon og Arvad
voru ræðarar þínir,
þínir hæfustu menn, Týrus, voru um borð,
þeir voru hásetar þínir.
9Öldungar frá Gebal og hagleiksmenn þaðan
voru smiðir um borð.
Öll hafskip og áhafnir þeirra komu til þín
til að versla við þig.
10Menn frá Paras, Lúd og Pút
gegndu þjónustu í her þínum,
þeir hengdu upp skjöld og hjálm í þér,
það var prýði þín.

11 Menn frá Arvad stóðu á múrum þínum ásamt þínum eigin her og Gammadar voru í turnum þínum. Þeir hengdu skildi sína á múra þína hringinn í kring og fullkomnuðu glæsileik þinn.