15 Svo segir Drottinn Guð við Týrus: Munu eyjarnar ekki nötra við dynkinn af falli þínu og stunur helsærðra þegar blóðbaðið verður skefjalaust í borginni? 16 Þá munu allir þjóðhöfðingjar strandríkjanna stíga niður úr hásætum sínum, leggja af sér skikkjur sínar og fara úr skartklæðum sínum. Þeir munu klæðast ótta, setjast á jörðina og titra og skjálfa vegna þín. 17 Þeir munu flytja harmljóð yfir þér og segja við þig:
Nú ertu eydd,
horfin af höfunum,
þú víðfræga borg
sem varst voldug á hafinu,
þú og íbúar þínir,
þú sem skelfdir alla
sem bjuggu þar.
18En nú skjálfa eyjarnar
á degi falls þíns.
Eyjarnar í hafinu
skelfast yfir afdrifum þínum.

19 Því að svo segir Drottinn Guð: Ég geri þig að rúst eins og borgirnar sem ekki eru lengur byggðar. Þegar ég læt frumdjúpið ganga yfir þig og hin miklu vötn hylja þig 20 steypi ég þér niður ásamt þeim sem fara ofan í gryfjuna til fyrri tíðar manna. Ég bý þér stað í iðrum jarðar eins og í eldfornum rústum svo að þú ríkir ekki aftur á landi lifenda. 21 Ég bý þér skelfileg endalok og þú munt ekki framar til verða. Þín verður leitað en þú finnst aldrei, segir Drottinn Guð.