Gegn Týrus

1 Á fyrsta degi mánaðarins á ellefta árinu kom orð Drottins til mín: 2 Mannssonur, Týrus segir um Jerúsalem: „Hlið þjóðanna er brotið. Mér hlotnast auður hennar þar sem hún liggur í rústum.“ 3 Því segir Drottinn Guð: Nú held ég gegn þér, Týrus. Ég mun senda margar þjóðir gegn þér, eins og brimöldur hafsins. 4 Þær munu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar. Ég mun sópa burt jarðvegi hennar og gera hana að berri klöpp. 5 Borgin skal verða þerrireitur fyrir fiskinet úti í miðju hafi því að ég hef talað, segir Drottinn Guð. Hún verður herfang framandi þjóða. 6 En dætur hennar á meginlandinu verða vegnar með sverði. Þá munu menn skilja að ég er Drottinn.
7 Því að svo segir Drottinn Guð: Nú sendi ég Nebúkadresar, konung í Babýlon, konung konunganna, úr norðri gegn Týrus með hesta, vagna, riddara, herlið og mikinn herstyrk. 8 Hann mun fella dætur þínar á meginlandinu með sverði. Hann mun reisa umsátursvirki gegn þér, gera víggirðingu gegn þér og setja upp skjaldþök gegn þér. 9 Hann mun láta högg múrbrjóts síns dynja á múrum þínum og mölva turna þína með járnkörlum. 10 Mergð hrossa hans er slík að jóreykurinn færir þig í kaf. Dynur frá hófaskellum og vagnhjólum skekur múra þína þegar hann fer um borgarhlið þín eins og þegar haldið er inn í hálfhrunda borg. 11 Hann mun traðka stræti þín með hófum hesta sinna, fella íbúana með sverði og steypa voldugum súlum þínum til jarðar. 12 Þeir munu ræna auðæfum þínum, hirða gróðann af verslun þinni. Múra þína munu þeir rífa og brjóta niður hinar glæsilegu byggingar þínar. Þeir munu fleygja steinunum, viðunum og leirnum úr þér út í hafsauga. 13 Ég mun þagga niður söngva þína og sítarhljómur þinn mun ekki heyrast framar. 14 Ég mun gera þig að berri klöpp. Þú skalt verða þerrireitur fyrir fiskinet, þú verður aldrei endurreist því að ég, Drottinn, hef talað, segir Drottinn Guð.