30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn fóru þeir til Olíufjallsins.

Afneitun sögð fyrir

31 Þá segir Jesús við þá: „Á þessari nóttu munuð þið allir hafna mér því að ritað er: Ég mun slá hirðinn og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast. 32 En eftir að ég er upp risinn mun ég fara á undan ykkur til Galíleu.“
33 Þá segir Pétur: „Þótt allir hafni þér skal ég aldrei hafna þér.“
34 Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.“
35 Pétur svarar: „Þótt ég ætti að deyja með þér þá mun ég aldrei afneita þér.“
Eins töluðu allir lærisveinarnir.

Í Getsemane

36 Þá kemur Jesús með þeim í garð er heitir Getsemane og hann segir við lærisveinana: „Setjist hér meðan ég fer og biðst fyrir þarna.“ 37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist. 38 Hann segir við þá: „Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér.“
39 Þá gekk Jesús lítið eitt lengra, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: „Faðir minn, ef verða má þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“
40 Jesús kom aftur til lærisveinanna og fann þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: „Þið gátuð þá ekki vakað með mér eina stund? 41 Vakið og biðjið svo að þið fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn en holdið veikt.“
42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: „Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji.“ 43 Þegar hann kom aftur fann hann þá enn sofandi því þeir gátu ekki haldið augunum opnum.
44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr. 45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: „Sofið þið enn og hvílist? Stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. 46 Standið upp, förum! Í nánd er sá er mig svíkur.“