Með svikum

1 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu sagði hann við lærisveina sína: 2 „Þið vitið að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar.“
3 Æðstu prestarnir og öldungarnir söfnuðust nú saman í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét, 4 og réðu með sér að handsama Jesú með svikum og taka hann af lífi. 5 En þeir sögðu: „Ekki á hátíðinni, annars verður uppþot meðal fólksins.“

Gott verk gerði hún

6 En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa. 7 Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum þar sem hann sat að borði. 8 Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: „Til hvers er þessi sóun? 9 Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum.“
10 Jesús varð þess vís og sagði við þá: „Hvað eruð þið að angra konuna? Gott verk gerði hún mér. 11 Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt. 12 Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn var hún að búa mig til greftrunar. 13 Sannlega segi ég ykkur: Hvar um heim sem fagnaðarerindi þetta verður flutt mun þess getið sem hún gerði og hennar minnst.“

Þrjátíu silfurpeningar

14 Þá fór einn þeirra tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna 15 og sagði: „Hvað viljið þið gefa mér fyrir að framselja ykkur Jesú?“ En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga. 16 Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja Jesú.